þriðjudagur, maí 30, 2006

Bíó, o.fl..........

Það líður nokkuð langt á milli blogga hjá mér sem stafar af einhverri pöddu í heimilistölvunni minni, sem gerir það að verkum að í hvert sinn sem ég er búinn að hlaða inn texta í blogg glugganna og reyni að pósta hann þá hverfur allt heila klabbið þ.a. ég verð að senda textann, sem eitthvert ritvinnsluskjal, eitthvert út í bæ, þar sem ég get svo komist í tölvu og póstað á blogginu mínu..........
Ég fór að sjá The da Vinci Code í bíó um daginn. Nokkuð góð ræma en á köflum, allavega fyrir mig, afar fyrirsjáanleg. Ekki af því að ég er búinn að lesa bókina – bara rétt rúmlega hálfnaður með hana – heldur af því að ég er búinn að lesa bækur Michael Baigent, Richard Leigh og Henry Lincoln, “The Holy Blood and the Holy Grail”, “The Messianic Legacy”, og fleiri bækur þessara höfunda og annarra, sem skrifað hafa um svipað efni, þ.e. hugsanleg tengsl Merovingian ættarinnar við Jesú Krist. Ég verð að segja, eftir að hafa lesið þessar bækur og kominn þetta langt í reyfara Dan Brown, að það er deginum ljósara að hann hefur náð í megnið af sínu efni í bækur fyrrnefndu höfundanna. Af því stafa nú líka málaferlin, sem hafa verið í gangi vegna bæði bókarinnar og myndarinnar. Það eina, held ég, að hægt sé að segja að sé "raunverulegt" verk Dan Brown er “reyfarinn” í sögunni þ.e. spennan og skáldskaparpersónurnar, þó sumar hverjar, eins og t.d. safnvörðurinn í Louvre safninu “Sauniere” sé nefndur beint eftir Berenger Sauniere, presti í Rennes-le-Chateau, litlum bæ í suðurhluta Frakklands.
Berenger Sauniere er sagður hafa auðgast mjög á afar stuttum tíma og á dularfullan hátt, eftir að hafa, að sögn þeirra sem hafa skoðað söguna, fundið einhverskonar handrit falið inni öðrum altarisstöpli kirkjunnar, sem hann hóf að þjóna 1 júní 1885. Kirkja þessi var helguð heilagri Magdalenu (Maríu Magdalenu ??) árið 1095 en stóð þó á grunni miklu eldri byggingar, sem reist var af Visigotum á sjöttu öld. Inn í þessa sögu fléttast svo krossferðirnar, Templar Church í London, Priory of Sion, Rosslyn Kapellan í Skotlandi o.fl. Um þetta allt saman - sami þráður og er í bók Dan Brown - er fjallað mjög ítarlega í bókum höfundanna, sem ég nefndi hér að ofan. Þær bækur eru reyndar allar skrifaðar sem fræðibækur og þó þær fjalli, á nánast sama hátt og The da Vinci Code, um þetta sama efni þá er öllu tormeltara að komast í gegnum þær. Kannski ég bloggi meira um þetta síðar enda hér um að ræða efni sem mér er afar hugleikið. Þannig var nú það..........

Um daginn (25 maí – á afmælisdegi systur minnar) sá ég svo myndina “An Unfinished Life” með þeim stórleikurum Robert Redford og Morgan Freeman í aðalhlutverkum, ásamt Jennifer Lopez. Mikið góð og hugljúf mynd, sem minnti mig ansi mikið á mynd Baltazar Kormáks “A Little Trip to Heaven” þ.e. kvikmyndatakan, leikmyndin og að sumu leyti söguþráðurinn og persónusköpunin en það er nú önnur saga. Hafði nokkru áður farið að sjá “Mission Impossible III” sem mér fannst aftur minna mig að mjög miklu leyti á gamla Schwarzenegger þrumarann “True Lies”. Sá hana svo í kjölfarið á “Mission Impossible III” og viti menn, sama hugmynd þ.e. maður sem lifir “venjulegu” lífi heima fyrir með konu sinni, sem að sjálfsögðu grunar ekki nokkurn skapaðan hlut og er svo leynilegur útsendari stjórnvalda í vinnunni, þó svo að vinnan sem hann vinnur gagnvart spúsu sinni sé ósköp venjuleg skrifstofuvinna í einhverju dauðyflisráðuneyti einhversstaðar í rassgati. Meira að segja flugatriðin afar lík í báðum myndunum og til að toppa þetta allt saman þá gerast þau á sömu brúnni, yfir sama vatnið í alsnægtaríkinu Norður Ameríku og að sjálfsögðu er verið að kljást við afar illa glæpamenn, frá öðrum ríkjum þessarar þjáðu veraldar, sem við byggjum, sem eru komnir til að meiða Bandaríkjamenn. Er ekki hægt orðið að gera eitthvað nýtt, sem enginn hefur gert áður??? Ég held varla enda er ekkert nýtt undir sólinni, allt sem hér er hefur alltaf verið hér og mun alltaf verða hér kannski einungis í breyttum formum.

Ég mæli hinsvegar með að þið, sem nennið að lesa þetta raus í mér, horfið á myndina “Lord of War”, sem ég er einnig nýbúinn að sjá, en hún er afar raunsönn lýsing á lífi alþjóðlegs vopnasala, sem leikinn er af Nicholas Cage, og sýnir hvernig líf fólks skiptir engu máli þegar kemur að peningalegum ágóða, gróða og valdafíkn. Hef séð þetta sjálfur með eigin augum í Bosníu, Kosovo og víðar á Balkanskaganum og einnig í Afríku þar sem ég hef unnið við friðargæslu. Þeir sem vilja lesa um og kynna sér þessi mál nánar bendi ég hinsvegar á skýrslur International Crisis Group (ICG) sem hægt er að nálgast á vefslóðinni www.crisisweb.org Þá ættu hinir sömu einnig að lesa bækurnar, sem ég mælti með í Bloggi mínu þann 4 maí s.l. og einnig að kynna sér sögu Bilderberg hópsins en upplýsingar um hann má að sjálfsögðu finna á Wikipedia http://en.wikipedia.org/wiki/Bilderberg_Group nú eða hér www.bilderberg.org

Spekingar spjalla..........

þriðjudagur, maí 23, 2006

Í upphafi var orðið..........

“Orð eru til alls fyrst” en við erum ekki að segja neitt. Ekki einu sinni að gera neitt. Fljótum bara sæl og glöð að feigðarósi örlaganna og fyllum land okkar þjáðu fólki úr öðrum löndum heims og heimsálfum. Fólki, sem oft á tíðum getur ekki og jafnvel vill ekki aðlagast okkar siðum og venjum. Við erum jafnvel ekki einu sinni að hjálpa þessu fólki að aðlagast okkur eða að útskýra fyrir því hver við erum, hvaðan við komum, fyrir hvað við og okkar þjóðfélag stendur og hvert við stefnum.......... Ef við þá stöndum fyrir eitthvað eða stefnum eitthvað í endalausu kaupæði og Mammonsdýrkun..........

Hvað finnst ykkur um trúfrelsi á Íslandi? Ég var að velta þessu fyrir mér aðeins s.l. laugardag í framhaldi af giftingu, sem ég var viðstaddur, og smá samræðna sem ég átti við tengdaföður minn rétt upp úr miðnætti. Trúfrelsi manna er stjórnarskrárvarinn réttur einstaklingsins. Hvernig virkar það frelsi innan þess lagaramma, sem hér er? Ef ég er Islamstrúar get ég þá kvænst átta konum, í samræmi við mína trú? Víða á Indlandi er fjölkvæni hluti af trúarbrögðum fólks einnig. Nei ég held varla að það yrði leyft því að fjölkvæni er bannað á Íslandi. Í Islam er það einnig hluti af trúarbrögðum að karlmaður getur snúið sér til austurs og sagt stundarhátt, þrisvar sinnum, ég skil við (Nafn konu) og er það hjónaband þá samstundis fyrir bí. Slíkt samrýmist heldur ekki okkar lögum. Hluti af þessum trúarbrögðum er líka sú staðreynd að hægt er að gifta stúlkur, allt niður í ellefu, tólf ára aldur, og það algerlega án þeirra samþykkis. Slíkt samræmist heldur ekki okkar lögum, mannanna lögum. Ergo það ríkir ekki trúfrelsi á Íslandi. Hvernig skyldum við Íslendingar ætla að samræma þessi trúarbrögð okkar lögum siðum og venjum? Ætli sé verið að skoða þetta eitthvað af þar til bærum yfirvöldum og já kannski líka trúarbragðafræðingum? Það vona ég því ef ekki þá á eftir að fara fyrir okkur líkt og frændum okkar Dönum, Norðmönnum, Svíum og Finnum. Við eigum eftir að finna okkur í djúpum drullupolli óásættanlegrar misklíðar milli okkar “innfæddra”, innflytjenda og trúarbragða, líkt og við sjáum í miðausturlöndum og víða annarsstaðar í þessari þjáðu veröld okkar..........

Í upphafi var orðið..........

Ó mig auman..........

Nú er þessari hundleiðinlegu Eurovision söngvakeppni lokið og Finland, af öllum löndum, búið að vinna....... Ég held að það hafi endanlega sannast í þessari keppni að þetta er viðundrasýning, sem á ekkert skylt við keppni, hvorki í söng, laga- eða ljóðasmíðum eða tónlistarflutning. Sjáið bara textann sem Silvía Nótt flutti í þessari skrípakeppni. Hvað á þessi texti að flytja fólki? Hvert er innihald textans? Hvað á hann skylt við Ísland eða Íslendinga? Hvað segir hann um Ísland eða Íslendinga? Æi ég nenni ekki að baula um þetta meira. Ætla bara að segja ykkur að ég kaus Silvíu Nótt á sínum tíma í undankeppninni hérna heima, til þess eins að leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að sýna fram á fáránleika þessarar Eurovision söngvakeppni. Mér tókst ætlunarverk mitt..........

Lítið búið að vera í gangi síðan mér tókst að koma inn bloggi síðast. Jú ég fór í útvarpsviðtal í morgunþátt Kiss FM, hjá Útvarpsstjörnu Íslands s.l. miðvikudag. Þurfti að vera kominn í hljóðverið fyrir kl. 07:30, sem í sjálfu sér er afrek hjá manni, sem ekki trúir á líf fyrir hádegi.
Alltaf gaman að ota sínum tota og láta ljós sitt skína.
Ætli ég gæti orðið útvarpsstjarna??
Það er ábyggilega heljarmikil vinna að setja saman útvarpsþátt og ég tala nú ekki um ef hann er einir þrír klukkutímar og á að flytja fólki einhvern fróðleik og skemmtan, sem það hefur áhuga á að heyra. Það er ekkert mál að senda frá sér sorp í líkingu við Splash TV, sem fallna fyrirsætan og fyrrverandi Hr. Ísland hefur verið að gubba yfir fólk á sjónvarpsstöðinni Sirkus. Það er hinsvegar mikið mál að setja saman eitthvað sem fólk hefur áhuga á og vill horfa eða hlusta á. Ræddi aðeins um The da Vinci Code sem byrjað er að sýna í kvikmyndahúsum um allan heim.
Ég fékk líka að velja óskalag, nokkuð sem ég hef aldrei gert eða fengið að gera áður!!!! Einu sinni er nú allt fyrst í veröldinni..........

Ég fór, ásamt stórfjölskyldunni, og kláraði helminginn af þakinu á sumarhúsinu okkar um síðustu helgi. Einnig sáðum við nokkrum grasfræum í flöt, aftan við bústaðinn, sem við grjóthreinsuðum áður og sléttum úr. Mjög gaman, bæði að smíða og eins að gróðursetja eitthvað, þó það hafi nú ekki verið merkilegra en grasfræ. Ég er þó allavega að græða upp landið.......... Ísland er landið..........

Vaknaði í nokkra daga, eftir smíðavinnuna, að drepast í skrokknum – einhverskonar vinnuharðsperrur, eitthvað sem skrifstofukarlar þjást af þegar þeir fara að taka á, líkamlega sjáið til.......... Ó mig auman..........

fimmtudagur, maí 11, 2006

Kosningabaráttan..........

Ég hef verið að fylgjast svolítið með kosningabaráttunni fyrir sveitastjórnarkosningarnar nú í vor, eins og sjálfsagt meginþorri Íslendinga á kosningaaldri.

Öll þessi umræða um flugvöll í eða úr Vatnsmýrinni eða á Löngusker hefur vakið sérstaka athygli mína og þá kannski sérstaklega kosningaloforð ExBé í Reykjavík, sem hafa leyft sér það að setja, á oddinn hjá sér, að Reykjavíkurflugvöllur verði færður út á Löngusker.
Í þessu sambandi má minnast á útspil Jónmundar Guðmarssonar, bæjarstjóra Seltjarnarness sem góðfúslega hefur bent á þá staðreynd, í Staksteinum Morgunblaðsins 09 maí, (var reyndar haft úr hádegisfréttum RÚV mánudaginn 08 maí) að Löngusker séu innan bæjarmarka Seltjarnarness og því verði enginn flugvöllur byggður þar nema í sátt við íbúa Seltjarnarness. Bæjarstjórar Kópavogs og Álftaness hafa reyndar komið sterkir inn í þessa umræðu líka og sagt hið sama og Jónmundur og reyndar gert sjálfir tilkall til Lönguskerja að hluta. Gunnar Jóhann Birgisson í Kópavogi kallaði þessar hugmyndir reyndar fáranlega útópíu.

Ég er nú reyndar alveg sammála Gunnari Jóhanni með þetta og á þeirri skoðun, prívat og persónulega að flugvöllurinn eigi að fara á Keflavíkurflugvöll. Sú tilfærsla myndi þá um leið laga aðeins það ástand sem er að skapast í atvinnumálum suður með sjó með brottflutningi bandarísks herafla af Íslandi. Í því samhengi mætti hugsa sér að klára tvöföldun Reykjanessbrautar og leggja rafmagnshraðlest á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar (nóg er til af rafmagningu með tilkomu allra þessara virkjana sem verið er að reisa um allt land). Lest sem færi frá umferðarmiðstöð, sem komið yrði fyrir í Vatnsmýrinni, einhversstaðar. Umferðarmiðstöð, sem yrði hugsuð sem arftaki Hlemmtorgsins og Strætó, Umferðarmiðstöðvarinnar BSÍ, sem nú er staðsett á milli “gömlu-“ og “nýju” Hringbrautarinnar og um leið upplýsingamiðstöð fyrir útlendinga á ferð um landið og biðstöð leigubifreiða (þarna væri líka hægt að leysa húsnæðisvandamál Borgarbílastöðvarinnar, sem nýlega lenti á hrakhólum).

Það mætti jafnvel, dusta rykið af gömlum hugmyndum manna um skipulag þessa svæðis þar sem gert var ráð fyrir yfirbyggðum vegi úr Vatnsmýrinni út á Álftanes. Mig minnir að Einar Þorsteinn Ásgeirsson, arkitekt og hönnuður, hafi eitthvað komið að slíkri tillögugerð ásamt því að hanna kúluhús, í anda Buckminster Fuller stefnunnar, í gríð og erg hér á árum áður. Ef hann kom ekki sjálfur að slíkri hugmyndavinnu þá veit hann eflaust hvaðan hún kom. Einar Þorsteinn hefur annars verið upptekinn af því síðustu árin m.a. að aðstoða Ólaf Elíasson myndlistarmann við listsköpun hans og hefur Einar Þorsteinn að mestu séð um alla burðarþols- og rúmfræðiútreikninga í glerlistaverkum Ólafs. Þar má m.a. nefna listaverk (ljósakrónur) í anddyri nýja óperuhússins í Kaupmannahöfn, klæðningu nýs tónlistarhúss í Reykjavíkurhöfn og stórt listaverk fyrir Nors Hydro.

Þetta upphlaup Framsóknarmanna í Reykjavík er nú reyndar ekki í fyrsta sinn sem Reykjavík og Reykvíkingar hafa ásælst land Seltjarnarness. Benda má á þá staðreynd að Reykjavík, eins og hún leggur sig nánast, stendur á landi Seltjarnarneshrepps hins forna. Upplýsingar um þetta má m.a. lesa á Wikipedia (www.wikipedia.org):

"Seltjarnarnes er bær á höfuðborgarsvæðinu og landminnsta sveitarfélag Íslands. Seltjarnarneshreppur valdi sína fyrstu hreppsnefnd árið 1875, en áður náði Seltjarnarneshreppur hinn forni yfir allt nesið milli Kollafjarðar og Skerjafjarðar. Hluti Kópavogs var áður hluti Seltjarnarneshrepps, en eftir að Valhúsahæð byggðist um og eftir síðari heimstyrjöldina myndaðist þar meirihluti fyrir aðskilnaði sem gekk í gildi áramótin 1947 / 1948, en við það varð sveitarfélagið það sem það er í dag. Seltjarnarnes fékk kaupstaðaréttindi 29. mars 1974."

Einnig má lesa nánar um þessar landfræðilegu staðreyndir á eftirtöldum vefslóðum:

www.seltjarnarnes.is/umhverfi/saga
www.obyggd.stjr.is/svland/07.pdf
www.obyggd.stjr.is/sv2.pdf

Kannski eitthvað meira um kosningar síðar...............

mánudagur, maí 08, 2006

Hélduð þið að ég væri hættur?????

Hæ, hæ og hó..........nú er komið sumar...loksins (held ég) og bongóblíða úti. Hvaðan kemur eiginlega þessi fáránlegi frasi "bongóblíða"??

Kæra dagbók..........................

Nú ég hef ekkert verið hérna síðan nokkru fyrir helgi enda úr tölvusambandi um helgina þar sem ég skrapp út úr bænum ásamt Dýzu Skvízu og nokkrum vinum okkar að Hótel Heklu þar sem við borðuðum góðan mat og skemmtum okkur. Ég náttúrulega tók á þessu að íslenskum sið sem endaði með því að Dýza Skvíza, elskan mín, varð að leggja mig til í læsta hliðarlegu í rúmið á hótelinu svo ég léti ekki lífið. Hitti þarna gamlan kunningja sem ég hef ekki séð síðan seint á síðustu öld. Sá hefur ekkert breyst, hvorki í útliti né karlmannlegum drykkjuvenjum.........

Svo sem lítið um að vera núna annað en vinna og aftur vinna. Nú og ekki má gleyma því að við erum núna að hjúkra honum Tamlin greyinu, sem hefur náð sér í einhverja öndunarfærasýkingu og er í ofanálag orðinn sólblómafræjafíkill, sem aftur hefur þýtt það að hann hefur hríðhorast vitleysingurinn sá. Nú tekur við slagur við að troða ofan í hann mat, nánast með trekt þ.a. hann nái sér á strik aftur karlinn. Nú í kvöld fer hann í "gufubað" til að losa aðeins um stíflur í honum. Leyfi ykkur að sjálfsögðu að fylgjast með þróun mála.

Hef verið að hlusta á nýjasta útvarpsþátt Íslands "Morgunþátt Kiss FM" á Kiss FM 89,5. Þessi þáttur er með "Útvarpsstjörnu Íslands" Markúsi Þórhallssyni og tveimur stúlkum, sem urðu í öðru og þriðja sæti (held ég) í keppninni um Útvarpsstjörnu Íslands. Ágætis þáttur svo sem - nýjabrumið enn að koma í gegn - spilar margfalt betri tónlist en aðrir hliðstæðir þættir en efnistök mjög svipuð þó. Kemur sterkur inn verð ég að segja.......

Stay tuned...................

fimmtudagur, maí 04, 2006

Hvert fór vorið???

Jæja, það borgar sig víst ekki að fagna vorinu of fljótt, eins og ég gerði í fyrradag. Það er horfið eins og dögg fyrir sólu. Fann til vetrarhryssings í fyrrakvöld þar sem ég norpaði í Vesturbæjarlauginni í kulda og rigningu.

Búinn að vera að leita að upplýsingum um Laurence Peter, sem fyrstur manna "uppgötvaði" hina svokölluðu "Peter Principle" sem, í stuttu máli sagt, fjallar um það að í goggunarröð stofnana og ríkisfyrirtækja hækka menn í tign uns þeir ná vanhæfni þrepi sínu ("rise to their level of incompetence"). Ég sá þessa reglu útlagða á svolítið öðruvísi hátt í bók William Blum "Rogue State - A Guide To The World´s Only Superpower", sem ég keypti í Eymundsson um daginn. William fjallar, í bók sinni, um heimsvaldastefnu Bandaríkjanna og hvernig hún birtist í ýmsum myndum, víðsvegar í veröldinni. Í bókinni yfirfærir William þessa Peter reglu á utanríkismálastefnu heimsvaldasinnaðra stjórnvalda, eins og t.d. í Bandaríkjunum, á þann veg að þeir sem starfa í því kerfi, vitandi og óafvitandi rísi upp á þrep grimmdar sem þeir sjálfir, á endanum, geti ekki lifað með ("rise to the level of cruelty they can´t live with"). Ansi áhugaverð bók og rituð svolítið í stíl bókarinnar "Falið Vald" sem Jóhannes Björn Lúðvíksson skrifaði 1979 og nálgast má á vefnum www.vald.org. Sú bók er holl lesning öllum Íslendingum og reyndar fleirum. Mér hefur verið sagt, af þeim sem lesið hafa, að "Draumalandið - Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð" eftir Andra Snæ Magnason sé líka holl lesning öllum Íslendingum.

Undarlegt hvernig svona bækur, eins og t.d. Falið Vald og Rogue State, einhvern vegin hverfa í bókaflóðinu og fá litla sem enga umfjöllun. Reyndar fékk Rogue State nokkra umfjöllun erlendis í framhaldi af því að Osama bin Laden mælti með henni!!!!!

Undarleg þessi veröld og þeir sem henni stjórna............ætli þeir séu "Nobodies", eins og kennari minn í mannamyndatökum, skilgreinir þá???

miðvikudagur, maí 03, 2006

Vorið er komið....???

Nú er loksins komið vor á Íslandi með þeirri rigningu sem vænta mátti af íslensku vori. Það vill svo heppilega til að ekki fer nú mikið fyrir hárinu á hausnum á mér sem getur farið úrskeiðis, jafnvel þó ég sé eins og gömul krumpuð nærföt.

Ég hef annars mikið verið að spá í hárkollur undanfarið, ekki það að ég ætli að fá mér eina slíka - þó svo að móðursystir mín elskuleg hafi fyrir mörgum árum nefnt við mig, þegar kollvikin voru farin að nálgast hnakkann, hvort ég ætlaði nú ekki að fara að fá mér hártopp - heldur mikið meira í þeim dúr "Hvað fær eiginlega fullorðna karlmenn til að klessa þessum dauðu köttum á hausinn á sér?" Er ekki miklu nær fyrir þá að vera eins töff og ég og Bubbi Morthens og raka hreinlega þessar lufsur allar af? Það er mikill sparnaður fólginn í því 1) þarf ekki að fara reglulega til hárskera til að láta kemba saman köttinn og lufsurnar; 2) þarf ekki að kaupa sjampó - notar bara kroppasápuna á höfuðleðrið; 3) þarf ekki að passa upp á að kötturinn fljóti af í sundi o.s.frv, o.s.frv. Sumum virðist hármissir þó verið mikið áfall og ekki ætla ég að gera lítið úr því enda kannski ekki alveg að marka mig þar sem mér finnst ég flottur, krumpaður eður ei og á ekki í neinni tilvistarkreppu eins og litli bróðir, sem reglulega þjáist af alvarlegum kvíðaköstum yfir því sem hann á ólokið í kjallaranum sem hann gróf svo skemmtilega út um árið þó er hann líka makkalaus eins og ég og hefur ekki af því miklar áhyggjur virðist vera - þrátt fyrir tilvistarkreppuna!!!! Kannski ég ætti að skrifa bók eða halda námskeið um það hvernig karlmenn eiga að vera og finnast þeir eiga að vera, þ.e.a.s. flottir, hvernig sem þeir eru. Það kemst nefnilega enginn með tærnar, þar sem sá hefur hælana, sem finnst hann langflottastur, gangandi niður laugaveginn með bumbuna sína út í loftið. Gefum skít í megrun og megrunarkúra, gefum skít í Atlas, Schwarzenegger, Gilzenegger og alla þessa "Ég fer í ljós þrisvar í viku" bolta og verum við sjálfir!!!!

Ég þarf annars að fara að spá í það hvernig ég set ljósmyndir inn á þetta bullblogg mitt þ.a. ég geti farið að deila með ykkur, lesendur góðir, ýmsum skemmtilegum myndum af hinu og þessu, þó aðallega þessu. Kannski ég fái Dýzu Skvízu í að hjálpa mér með það eða jafnvel "Útvarpsstjörnu Íslands" sem ég þekki og hef þekkt löngu áður en hann varð frægur. Svo hélduð þið að ég væri bara einhver einmana sköllóttur feitur gamall karl, sem liti út eins og krumpuð náttföt, ætti í tilvistarkreppu og væri að hugsa um að fá mér hárkollu..............nei ekki aldeilis, ég þekki sko líka frægt fólk.............

þriðjudagur, maí 02, 2006

Nobody...

Mikinn og ofboðslegan tíma tók hjá mér að koma færslu númer tvö út. Einhver draugur í tölvunni hjá mér en vonandi í lagi núna. Kannski vill enginn lesa þetta hjá mér og tölvan að láta mig vita af því svona undir rós.......

Gömlu krumpuðu náttfötin....voru að taka myndir núna um helgina. Myndir af fólki og athöfnum fólks. Þar kom að mér maður og bað mig um að taka myndir af frægu fólki þar sem það væri að taka í hendur og tala við fólk sem skipti máli því það skipti svo miklu máli að sjá myndir af fólkinu tala við og taka í hendurnar á fólki sem skipti máli því það vildi enginn sjá myndir af fólkinu tala við og taka í hendurnar á einhverjum "nobody".........., þ.e.a.s. einhverjum sem skiptir ekki máli........ Hvað heldur fólk eiginlega að það sé. Hver telur sig þess umkominn að segja að Séra Jón sé einhver og Bara Jón sé "nobody", hvað þá með Jónínu, eins og Þráinn Bertelson skrifaði í Fréttablaðið nú um helgina. Þar sagði hann frá dómamisræmi þar sem einhver fauk inn í fangelsi í sex mánuði fyrir að stjaka við sýslumanni, annar fékk fjóra mánuði skilorðsbundna fyrir að aka ölvaður á lögreglumann og kýla viðkomandi og sá þriðji fékk skitna fimmtíuþúsund króna sekt fyrir að ganga í skrokk á konu. Greinilegt að dómstólar landsins telja sig þess umkomna að skera úr um það hver sé einhver og hver sé "nobody", eins og kennari minn í mannamyndatökum...................

Kæra dagbók...gömul krumpuð náttföt

Kæra dagbók.........
.....Hvað er "blog" annað en dagbók einhvers, sem heldur að allur heimurinn hafi áhuga á að heyra hvað á daga viðkomandi hefur drifið. Einhvers sem heldur að það sem hann eða hún hafi að segja skipti einhvern annan máli en þann sem skrifar.......... Nú er ég kominn í þann hóp, aftur, SORGLEGT...................... "Just another brick in the wall............."
Það var nefnilega þannig að ég setti upp mína eigin heimasíðu fyrir mörgum árum síðan, sem, þegar þetta er skrifað vel á sjötta þúsund manns hafa heimsótt (ég sjálfur sjálfsagt 5000 sinnum......). Blog er í raun svipað dæmi og heimasíða nema að því leyti að heimasíðugerð krefst þess að viðkomandi hafi einhvern skilning og getu til forritunar í html, bla, bla, bla.......

Sem sagt...... KÆRA DAGBÓK........ ég skellti mér út á lífið, fyrri part helgarinnar. Ég fór ásamt konu minni, Hafdísi, mínum elskulega litla (þeim eldri af tveimur yngri) bróður Torfa og hans konu Jóhönnu út að borða og í framhaldi af því skoðuðum við skemmtanalíf Reykjavíkur. Við byrjuðum á því að fara út að borða á Rosso Pommodoro, sem er á Laugaveginum. Ágætis staður, góður matur - það sem við fengum okkur þ.e.a.s. - of mikill hávaði (skvaldur), stólar of harðir og of opið. Hafandi sagt allt þetta komum við að kjarna málsins, sem er að þessi staður er í raun bara enn einn keðjustaðurinn í anda Hard Rock Café, TGI Friday´s, Ruby Tuesday, Subway, Burger King, McDonalds o.s.frv., þar sem hugmyndin er að rótera á borðunum tvisvar, þrisvar, fjórum, fimm sinnum eða oftar yfir kvöldið og ná sem mestum hagnaði með sem minnstum tilkostnaði - hver vill ekki græða og um leið tilbiðja Mammon............ Engir dúkar á borðum, pappírsmunnþurrkur, einhverjar sósuflöskur á miðju borði o.s.frv. Miðað við allt þetta var maturinn í betra lagi, reyndar bara nokkuð góður, en dýr. Vínin voru líka að sama skapi dýr, en það sem ég fékk mér, "vín hússins" nokkuð gott, frá Chile. Suður Ameríku vínin svíkja mann reyndar sjaldan, þó þau bestu þaðan komist ekki með tærnar þar sem þau bestu frönsku og ítölsku hafa hælana. Þetta er líka í fyrsta sinn, sem ég man eftir, þar sem ég þarf að tala ensku á íslenskum matsölustað til að fá að borða. ÞETTA GENGUR EKKI!!!!!!! Þegar ég fer út að borða, hvar sem er, ætlast ég til þess að þeir sem þjóni mér til borðs tali það tungumál, sem er opinbert mál viðkomandi lands. Á Íslandi tala ég íslensku og engar refjar. Ég reyni svo að bjarga mér á einhverju örðu tungumáli utan Íslands!!!
Nú eftir matinn fórum við og kíktum á lífið................og þvílíkt líf. Byrjar í fyrsta lagi ekki fyrr en vel yfir miðnætti. Þegar illa, og lítt klædd ungmenni streyma út á göturnar úr einhverjum heima samkvæmum, mismikið ölvuð eða, það sem verra er, útúrdópuð.......... Þvílíkt og annað eins!!!!!! Það hefur ekkert breyst - sjálfsagt ekki ég heldur - en þessir staðir eru allir eins og hugsa um það eitt að koma áfengi ofan í fólk með sem minnstum tilkostnaði. Inn á milli fáum við svo einhvern sjálfskipaðan snilling "Gúru" til að þeyta sínar leiðinlegu skífur með "Thump, Thump, Thump" takti, sem hristir hjartað á manni úr sínum eðlilega takti og steinarnir í veggnum liðast með í iðandi takti tilgangsleysisins. Hvað varð um stemmninguna úr Glaumbæ, Sigtúni, Klúbbnum, Hollywood eða gamla Broadway, þar sem nú er bíó??Hafandi staðið í biðröð á einum af "Inn" stöðunum, í nokkurn tíma, fór mér að blöskra. Þarna stóð ég, stórmennið, innan um ótíndan almúginn, í röð, bíðandi eftir að komast inn hjá viðkomandi vert til að eyða þar mínum peningum í áfengi og berja "elítuna" augum en viti menn, einhverjir "útvaldir" fengu að fara framhjá röðinni og beint inn af því að þeir þekktu dyravörðinn eða eiganda staðarins, voru á einhverjum "mikilvæg persóna" (VIP) lista nú eða voru bara hreinlega hallærislegir (ekki það að ég kæmist ekki í síðasta flokkinn). Konan mín hafði reyndar á orði - þegar ég stakk upp á því að kíkja inn á einhvern stað, sem ég vissi að hún hafði vanið komur sínar á, meðan ég stillti til friðar í heiminum - að ég passaði ekki þar inn því ég væri eins og "gömul krumpuð náttföt". Mér sem finnst ég vera svo flottur.......... Ég held ég verði aldrei inn eða í tísku...........SORGLEGT......eða hvað?