fimmtudagur, maí 11, 2006

Kosningabaráttan..........

Ég hef verið að fylgjast svolítið með kosningabaráttunni fyrir sveitastjórnarkosningarnar nú í vor, eins og sjálfsagt meginþorri Íslendinga á kosningaaldri.

Öll þessi umræða um flugvöll í eða úr Vatnsmýrinni eða á Löngusker hefur vakið sérstaka athygli mína og þá kannski sérstaklega kosningaloforð ExBé í Reykjavík, sem hafa leyft sér það að setja, á oddinn hjá sér, að Reykjavíkurflugvöllur verði færður út á Löngusker.
Í þessu sambandi má minnast á útspil Jónmundar Guðmarssonar, bæjarstjóra Seltjarnarness sem góðfúslega hefur bent á þá staðreynd, í Staksteinum Morgunblaðsins 09 maí, (var reyndar haft úr hádegisfréttum RÚV mánudaginn 08 maí) að Löngusker séu innan bæjarmarka Seltjarnarness og því verði enginn flugvöllur byggður þar nema í sátt við íbúa Seltjarnarness. Bæjarstjórar Kópavogs og Álftaness hafa reyndar komið sterkir inn í þessa umræðu líka og sagt hið sama og Jónmundur og reyndar gert sjálfir tilkall til Lönguskerja að hluta. Gunnar Jóhann Birgisson í Kópavogi kallaði þessar hugmyndir reyndar fáranlega útópíu.

Ég er nú reyndar alveg sammála Gunnari Jóhanni með þetta og á þeirri skoðun, prívat og persónulega að flugvöllurinn eigi að fara á Keflavíkurflugvöll. Sú tilfærsla myndi þá um leið laga aðeins það ástand sem er að skapast í atvinnumálum suður með sjó með brottflutningi bandarísks herafla af Íslandi. Í því samhengi mætti hugsa sér að klára tvöföldun Reykjanessbrautar og leggja rafmagnshraðlest á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar (nóg er til af rafmagningu með tilkomu allra þessara virkjana sem verið er að reisa um allt land). Lest sem færi frá umferðarmiðstöð, sem komið yrði fyrir í Vatnsmýrinni, einhversstaðar. Umferðarmiðstöð, sem yrði hugsuð sem arftaki Hlemmtorgsins og Strætó, Umferðarmiðstöðvarinnar BSÍ, sem nú er staðsett á milli “gömlu-“ og “nýju” Hringbrautarinnar og um leið upplýsingamiðstöð fyrir útlendinga á ferð um landið og biðstöð leigubifreiða (þarna væri líka hægt að leysa húsnæðisvandamál Borgarbílastöðvarinnar, sem nýlega lenti á hrakhólum).

Það mætti jafnvel, dusta rykið af gömlum hugmyndum manna um skipulag þessa svæðis þar sem gert var ráð fyrir yfirbyggðum vegi úr Vatnsmýrinni út á Álftanes. Mig minnir að Einar Þorsteinn Ásgeirsson, arkitekt og hönnuður, hafi eitthvað komið að slíkri tillögugerð ásamt því að hanna kúluhús, í anda Buckminster Fuller stefnunnar, í gríð og erg hér á árum áður. Ef hann kom ekki sjálfur að slíkri hugmyndavinnu þá veit hann eflaust hvaðan hún kom. Einar Þorsteinn hefur annars verið upptekinn af því síðustu árin m.a. að aðstoða Ólaf Elíasson myndlistarmann við listsköpun hans og hefur Einar Þorsteinn að mestu séð um alla burðarþols- og rúmfræðiútreikninga í glerlistaverkum Ólafs. Þar má m.a. nefna listaverk (ljósakrónur) í anddyri nýja óperuhússins í Kaupmannahöfn, klæðningu nýs tónlistarhúss í Reykjavíkurhöfn og stórt listaverk fyrir Nors Hydro.

Þetta upphlaup Framsóknarmanna í Reykjavík er nú reyndar ekki í fyrsta sinn sem Reykjavík og Reykvíkingar hafa ásælst land Seltjarnarness. Benda má á þá staðreynd að Reykjavík, eins og hún leggur sig nánast, stendur á landi Seltjarnarneshrepps hins forna. Upplýsingar um þetta má m.a. lesa á Wikipedia (www.wikipedia.org):

"Seltjarnarnes er bær á höfuðborgarsvæðinu og landminnsta sveitarfélag Íslands. Seltjarnarneshreppur valdi sína fyrstu hreppsnefnd árið 1875, en áður náði Seltjarnarneshreppur hinn forni yfir allt nesið milli Kollafjarðar og Skerjafjarðar. Hluti Kópavogs var áður hluti Seltjarnarneshrepps, en eftir að Valhúsahæð byggðist um og eftir síðari heimstyrjöldina myndaðist þar meirihluti fyrir aðskilnaði sem gekk í gildi áramótin 1947 / 1948, en við það varð sveitarfélagið það sem það er í dag. Seltjarnarnes fékk kaupstaðaréttindi 29. mars 1974."

Einnig má lesa nánar um þessar landfræðilegu staðreyndir á eftirtöldum vefslóðum:

www.seltjarnarnes.is/umhverfi/saga
www.obyggd.stjr.is/svland/07.pdf
www.obyggd.stjr.is/sv2.pdf

Kannski eitthvað meira um kosningar síðar...............

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Mér er svosem slétt sama hverju hver lofar, þegar upp er staðið hlýtur fjármagnið að ráða því hvert flugvöllurinn fer, já og gleymum ekki kjördæmapoturunum utanaf landi, því hafa þeir sitthvað við það að athuga hvert völlurinn fer. En ég er sammála þér, til Keflavíkur með kvikindið og ekki orð um það meir. Annars er gaman að sjá að þú ert búinn að laga síðuna svo litli bróðir geti líka rifið kjaft.
C Ya

15:14  
Anonymous Nafnlaus said...

Mér finnst Lönguskerjahugmyndin flott á mynd, sama sosum hver telur sig eiga þau. Hélt reyndar í barnaskap mínum að flugvöllur í Reykjavík þjónaði öllum, hvort sem þeir búa í Reykjavík, Seltjarnarnesi eða Kópavogi...eða hvar sem er...

19:01  
Blogger Snorri said...

Já Lönguskerjahugmyndin er flott á mynd og allt það en hugsið ykkur allt sjávarrokið, sem myndi dynja á flugvélunum, með tilheyrandi tæringu vélanna. Þessi hugmynd myndi einnig þýða það að þvo þyrfti flugvélarnar oft á dag. Ég er hræddur um að þessi hugmynd hefði í för með sér stóraukinn viðhaldskostnað flugfélaganna á Íslandi, með samsvarandi hækkun flugfargjalda. Til Keflavíkur með völlinn, þar er allt til alls!!!!

08:53  
Anonymous Nafnlaus said...

Já já, bara jafn latur og ég!!! Það virðist sem sjarminn fari mjög fljótt af þessu blog rugli sérstaklega þegar maður les síður eins og þessa

http://blog.central.is/sjuddirallirei

eða á maður kannski að blogga til baka af fullri heift????

23:11  

Skrifa ummæli

<< Home