miðvikudagur, maí 03, 2006

Vorið er komið....???

Nú er loksins komið vor á Íslandi með þeirri rigningu sem vænta mátti af íslensku vori. Það vill svo heppilega til að ekki fer nú mikið fyrir hárinu á hausnum á mér sem getur farið úrskeiðis, jafnvel þó ég sé eins og gömul krumpuð nærföt.

Ég hef annars mikið verið að spá í hárkollur undanfarið, ekki það að ég ætli að fá mér eina slíka - þó svo að móðursystir mín elskuleg hafi fyrir mörgum árum nefnt við mig, þegar kollvikin voru farin að nálgast hnakkann, hvort ég ætlaði nú ekki að fara að fá mér hártopp - heldur mikið meira í þeim dúr "Hvað fær eiginlega fullorðna karlmenn til að klessa þessum dauðu köttum á hausinn á sér?" Er ekki miklu nær fyrir þá að vera eins töff og ég og Bubbi Morthens og raka hreinlega þessar lufsur allar af? Það er mikill sparnaður fólginn í því 1) þarf ekki að fara reglulega til hárskera til að láta kemba saman köttinn og lufsurnar; 2) þarf ekki að kaupa sjampó - notar bara kroppasápuna á höfuðleðrið; 3) þarf ekki að passa upp á að kötturinn fljóti af í sundi o.s.frv, o.s.frv. Sumum virðist hármissir þó verið mikið áfall og ekki ætla ég að gera lítið úr því enda kannski ekki alveg að marka mig þar sem mér finnst ég flottur, krumpaður eður ei og á ekki í neinni tilvistarkreppu eins og litli bróðir, sem reglulega þjáist af alvarlegum kvíðaköstum yfir því sem hann á ólokið í kjallaranum sem hann gróf svo skemmtilega út um árið þó er hann líka makkalaus eins og ég og hefur ekki af því miklar áhyggjur virðist vera - þrátt fyrir tilvistarkreppuna!!!! Kannski ég ætti að skrifa bók eða halda námskeið um það hvernig karlmenn eiga að vera og finnast þeir eiga að vera, þ.e.a.s. flottir, hvernig sem þeir eru. Það kemst nefnilega enginn með tærnar, þar sem sá hefur hælana, sem finnst hann langflottastur, gangandi niður laugaveginn með bumbuna sína út í loftið. Gefum skít í megrun og megrunarkúra, gefum skít í Atlas, Schwarzenegger, Gilzenegger og alla þessa "Ég fer í ljós þrisvar í viku" bolta og verum við sjálfir!!!!

Ég þarf annars að fara að spá í það hvernig ég set ljósmyndir inn á þetta bullblogg mitt þ.a. ég geti farið að deila með ykkur, lesendur góðir, ýmsum skemmtilegum myndum af hinu og þessu, þó aðallega þessu. Kannski ég fái Dýzu Skvízu í að hjálpa mér með það eða jafnvel "Útvarpsstjörnu Íslands" sem ég þekki og hef þekkt löngu áður en hann varð frægur. Svo hélduð þið að ég væri bara einhver einmana sköllóttur feitur gamall karl, sem liti út eins og krumpuð náttföt, ætti í tilvistarkreppu og væri að hugsa um að fá mér hárkollu..............nei ekki aldeilis, ég þekki sko líka frægt fólk.............

2 Comments:

Blogger Dýza skvíza said...

Ég er alveg til í að hjálpa þér við að setja myndir inn á bullbloggið þitt ... :-D

15:35  
Blogger Snorri said...

Tókst að koma inn myndum, eins og þið getið séð í nýjasta jarminu mínu......

15:20  

Skrifa ummæli

<< Home