fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Óheppilegt..........

Þessi pistill var fluttur í morgunþætti Kiss FM 89,5 fimmtudaginn 31 ágúst 2006.
Það var óheppilegt, sagði lagaprófessorinn á Akureyri um það að Árna Johnsen skyldi verða veitt uppreisn æru sinnar vegna brota sem hann framdi, ekki einungis í opinberu starfi, heldur sem þingmaður á hinu háa Alþingi Íslendinga. Sjálfri löggjafarsamkundunni þar sem samin eru lög fyrir sauðsvartan almúgann að fara eftir. Ef við, aumingjarnir, förum svo ekki eftir lögunum erum við dæmd til refsingar, sem allt er nú gott og vel. Það sem hinsvegar vekur sérstaka athygli í þessu máli er að maður, sem á starfa síns vegna, að vera fyrirmynd okkar hinna – hann jú átti þátt í því til margra ára að setja okkur leikreglurnar – skuli, nánast óumbeðið, ef marka má orð hans sjálfs í fjölmiðlum fá uppreisn æru fyrir það að stela frá okkur til sinna eigin þarfa. Það sem vekur líka athygli í þessu öllu saman er sú staðreynd að það skuli vera flokkssystkin hans úr Sjálfstæðisflokknum, sem handhafar forsetavalds í fjarveru Forseta Íslands, sem tóku þá undarlegu ákvörðun að veita Árna Johnsen uppreisn æru sinnar. Þau hefðu betur, að mínu mati og reyndar lagaprófessorsins á Akureyri líka, beðið komu Forsetans til landsins og leyft honum að glíma við þessa þraut. En þetta er nú allt saman búið og gert líkt og glæpur Árna sem hann hefur jú tekið út sína refsingu fyrir í einu af yfirfullum fangelsum landsins. Hann virðist líka vera einn af afar fáum sem náð hafa að koma þaðan út fullur iðrunar, lofandi bót og betrun og það sem meira er hafandi fundið listagyðjuna innra með sér í betrunarvistinni og límir saman grjót í gríð og erg. Árni greyið talaði nú reyndar um að þetta hafi allt saman verið mistök þegar rætt var við hann í sjónvarpinu í gær og ætli hann hafi ekki bara óvart LENT í þessu óhappi. En – batnandi mönnum er best að lifa segi ég og til hamingju Árni með að komast aftur að kjötkötlunum.

Það er þá kannski líka von, fyrir olíusamráðsfurstana, eftir að þeir hafa hlotið sinn dóm og uppreisn æru frá m.a. maka sínum að þeir finni innra með sér frið og ró eftir að hafa haft af meginþorra landsmanna fé, með ólögmætum hætti til margra ára, að þeir finni hjá sér skapandi þörf og haldi jafnvel sýningar á einhverjum klessuverkum eða grjóthnullungum, sem þeir gætu svo, sameinast um að selja ríkinu á uppsprengdu en að sjálfsögðu sama verði allir sem einn. Einn fyrir alla og allir fyrir einn sögðu skytturnar þrjár. Kannski það hafi líka verið kjörorð olíufurstanna þriggja?

Æ það er svo gaman að fylgjast með stjórnendum bananalýðveldisins, hverjum á fætur öðrum reyna að draga hvern annan upp úr skítnum, sem þeir hafa mokað yfir sig trekk í trekk, algerlega hjálparlaust. Svo er talað og talað og malað og malað og lofað og lofað og svikið og svikið og stolið og stolið, meira og meira úr vösum almúgans til að lækka skatta og minnka skyldur þessara sömu bananatínslumanna. Stolið svo furstarnir geti haldið úti vinnuhjúum og farið til útlanda á okkar kostnað. Við erum jú bara óþjóðalýður og skríll, sem ekki einu sinni gætum lifað í vellystingum praktúðlega þó okkur væru færðir gull og grænir skógar. Við myndum bara sigla fleyinu í strand í endalausu gullæði og neyslufylleríi, eins og okkur er sagt að við séum að gera núna. Við erum bara vitleysingar og þeir eru snillingar, sem stjórna bananalýðveldinu.

Það er kominn tími til að gera eitthvað annað en að tala og tala og mala og mala. Það er kominn tími til að sýna bananaplantekrueigendunum að það er fylgst með þeim og gera þeim það ljóst að þeir verði dæmdir af verkum sínum og hjáverkum líka þegar kemur að kosningum. Það er kominn tími til að hleypa heiðarlegum einstaklingum að því að stjórna þessu landi okkar til enn meiri hagsældar. Það er kominn tími til að hreinsa til í skúmaskotum þjóðfélagsins og koma bak við lás og slá glæpamönnum þessarar þjóðar, hvar sem þeir kunna að leynast. Það er kominn tími til að skila auðu í kosningum.

miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Ástandið..........

..........í Reykjavík og reyndar á landinu öllu hefur verið mikið í umræðu fjölmiðla undanfarið og þannig heyrði ég t.d. í gær (29 ágúst) í "Reykjavík síðdegis" viðtal við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Ég reyndar heyrði ekki allt viðtalið en heyrði þó að Ráðherrann hafði greinilega verið spurður eitthvað út í stofnun leyniþjónustu á Íslandi, sem og almennt ástand löggæslumála. Á svörum ráðherra mátti heyra að hann væri hæstánægður með störf lögreglu t.a.m. í fíkniefnamálaflokknum, sem er allt gott og vel. Þannig er hinsvegar mál með vexti að lögreglan sinnir ýmsum öðrum málaflokkum og alls ekki síður mikilvægum en fíkniefnamálaflokknum svokallaða. Þar má t.d. nefna umferðarmál, kynferðisbrot, líkamsmeiðingar, auðgunarbrot, forvarnir og svona mætti afar lengi telja því segja má að allt það sem mannskepnan gerir á einn eða annan hátt geti leitt af sér afskipti lögreglu af þegnum þessa lands. Til þess þarf lögreglan að sjálfsögðu mannafla og tækjabúnað, sem þarf, hvorutveggja, að vera nægur og af bestu fáanlegu gerð hverju sinni. Ég tek það sérstaklega fram hér að ég styð heilshugar við bakið á Ráðherranum með þær ráðagerðir, sem hann er með á prjónunum um t.d. stofnum greiningardeildar og nú síðar um stofnun leyniþjónustu, sem löngu er orðið tímabært.

Mér segir svo hugur, eftir að hafa þvælst mikið um í umferðinni í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum að umferðarlöggæsla sé af skornum skammti. Ég man t.d. þá tíð að hafa séð lögreglubíla og mótorhjól úti í vegarkanti þar sem verið var að hraðamæla ÖLL ökutæki, sem ekið var tilteknar götur. Slíkt hef ég ekki séð í háa herrans tíð.
Ég man það líka að hafa séð "heldri" lögreglumenn á gangi um miðborgina að degi til, þar sem þeir gáfu sig á tal við fólkið á götunni. Slíkt hef ég ekki séð lengi.
Ég man þá tíð að lögreglustöð var í miðborg Reykjavíkur. Slíkt hef ég ekki séð lengi.
Ég man þá tíð að hafa séð myndir í dagblöðum af hreyknum lögreglumönnum, sem nýkomnir voru með réttindi til að starfa á mótorhjólum. Slíkt hef ég ekki séð lengi.
Ég man þá tíð að Óskar heitinn Ólason, yfirlögregluþjónn umferðardeildar lögreglunnar var myndaður á gatnamótum Snorrabrautar og Laugavegar upp úr miðjum desembermánuði, þar sem hann var að "kveikja á jólaumferðinni". Slíkt hef ég ekki séð lengi. Held reyndar að sérstök staða yfirlögregluþjóns umferðardeildar lögreglunnar í Reykjavík sé ekki til lengur þrátt fyrir gífurlega aukningu vélknúinna farartækja í lögsagnarumdæmi lögreglunnar í Reykjavík og gríðarlega stækkun sama lögsagnarumdæmis og fólksfjölgun innan þess, sem nú nær frá Gróttuvita í vestri og upp í Hvalfjarðarbotn í austri / norðri.
Ég man eftir því að hafa einhvern tíma heyrt af því að lögreglan í Reykjavík ætti einhver fimmtán (15) lögreglumótorhjól til umferðarlöggæslu, aðallega. Um daginn heyrði ég að þar væru til fimm (5) slík mótorhjól. Breytingin hefur vafalaust verið í takt við aukinn fjölda farartækja í umferðinni, þó mér sé fyrirmunað að skilja samhengið í þessum hlutum.
Ég man þá tíð að Sæmi "Rokk" og Ingimundur voru aðal löggurnar á Seltjarnarnesi og þekktu þar allt og alla. Slíkt hef ég ekki séð lengi.
Ég man eftir því að hafa heyrt um eflingu löggæslu í Grafarvogshverfi Reykjavíkur þar sem lögreglumönnum, í þessu annars fjölmenna hverfi var fjölgað úr sjö (7) í fimm (5).
Ég man líka eftir að hafa heyrt af því fréttir að nú ætti að efla löggæslu í Breiðholtshverfunum þremur (Neðra-, Efra- og Seljahverfum) og að þar ætti alltaf að vera til taks lögreglubifreið, gerð út frá Breiðholtsstöð lögreglunnar. Ég veit ekki til að slíkt hafi gerst enn.
Ég man þá tíð að lögreglan hreykti sér af því að vera nú komin með eina af þyrlum Landhelgisgæslu Íslands í sína þjónustu og nú skyldu sko ökuníðingar og fantar borgarinnar fara að vara sig. Slíkt hef ég ekki séð lengi.
Ég man þá tíð að hafa séð myndir í dagblöðum, af lögreglumönnum að aðstoða gæsir, endur og fleiri íbúa Tjarnarinnar í Reykjavík, að komast á milli tjarnarhlutanna þrigggja. Slíkt hef ég ekki séð lengi. Nú sé ég bara dauðar gæsir og endur á nýju Hringbrautinni, þegar ég á erindi þar um.
Ég veit ekki alveg hvað er að en sennilega er það bara sjónin í mér sem er að versna. Í það minnsta er á yfirmönnum löggæslumála í Reykjavík að heyra að það sé bara allt í lagi. Er allt í lagi að banaslys í umferðinni séu orðin nítján (19) að tölu á þessu ári og þar af, hvorki fleiri né færri en sjö (7) það sem af er ágústmánuði, anno domini 2006? Þá eru ótalin þau mannslíf, sem horfið hafa vegna ofneyslu ýmisskonar fíkniefna, sem flutt hafa verið ólöglega inn til landsins og eru seld á götum, í húsum og á börum borgarinnar.
Þá eru ótalin öll þau heimili og fyrirtæki, sem brotist hefur verið inn í og stolið frá saklausu fólki og skattgreiðendum þessa lands.
Ekki veit ég nákvæmlega hversu mikið íbúum höfuðborgarsvæðisins hefur fjölgað t.d. s.l. tuttugu ár. Þá veit ég heldur ekki hversu mikið farartækjum íbúa þessa sama svæðis hefur fjölgað en mér segir svo hugur að sú fjölgun sé umtalsverð. Mér segir líka svo hugur að löggæslan hafi ekki aukist í takt við aukinn íbúafjölda né aukinn fjölda ökutækja. En eins og ég skrifaði hér að ofan gæti sjón minni svo sem verið farið að hraka með árunum.
Það væri gaman að sjá einhverja úttekt á þessu öllu saman og þá kæmi í ljós hvort að ég þyrfti að fá mér sterkari gleraugu.

Áfram Ísland, áfram Reykjavík..........

sunnudagur, ágúst 27, 2006

Sunnudagur..........

..........og ég nýbúinn að borða þennan dýrindis morgunverð og sit og sötra mitt te (Earl Grey) við tölvuna.

Hugsandi..........

Um hvað??

Jú eitt og annað, t.d. það að ég greip niður í dagbók Þráins Bertelssonar á bls. 20 í Fréttablaðinu frá því í gær (26 ágúst 2006). Ég las nú eiginlega bara dagbókarfærslu hans frá mánudeginum 21 ágúst en þar skrifaði hann um "Glæpafyrirtæki" og var þar að fjalla um olíuverðssamráðsfurstana, sem engan dóminn hafa fengið úthlutaðan frá Emírnum yfir Íslandi. Af því berast fregnir að málið sé hálf fast hjá Ríkissaksóknara af því að það er ekki til peningur til að borga mönnum yfirvinnu þ.a. hægt sé að klára vinnuna og, væntanlega, gefa út ákæru!!!!! Á meðan spókar fyrrverandi olíuverðssamráðsfursti sig, á lúsarlaunum, með spúsu sinni á kostnað skattgreiðenda í útlöndum. Bara af því að spúsan er á jötu hins opinbera á hinu háa Alþingi. Hvar í veröldinni annarsstaðar myndi slíkt vera látið viðgangast. Jú kannski í einhverjum bananalýðveldum þriðja heimsins, svokallaða, þar sem ráðamenn skipa frændgarð sinn í ráðherra-, þingmanns- og aðrar valdastöður í þjóðfélaginu. Á meðan á öllu þessu gengur er til nógur peningur til að skipa sérstakan ríkissaksóknara til að halda úti árásum á eitt af afar fáum fyrirtækjum á Íslandi, sem hafa virkilega reynt að létta greiðslubyrði mína m.a. í matarinnkaupum.

Er gott að búa á Íslandi?????
Lesið líka:

föstudagur, ágúst 25, 2006

Dýflissan..........

..........hjá honum litla bróður mínum er smátt og smátt að taka á sig eðlilegri mynd. Ekki kemur hann við sögu, frekar en á blogginu sínu því þessi litla varta er núna úti í Glasgow á tónleikum með Rolling Stones!!! Miðana vann hann, eftir að hafa "stalkað" einhvern útvarpsmanngrey á Bylgjunni árum saman með endalausum hringingum þar sem hann spurði stanslaust hvort ekki væri verið að gefa þetta eða hitt. Á meðan er ég, elskulegur stóri bróðir, læstur ofan í dýflissunni, ásamt mági okkar, þar sem við stritum fyrir saltinu í grautinn. Ég ætti nú reyndar að segja þar sem við þrælum því að sjálfsögðu er það ekki svo gott að við fáum fyrir salti í grautinn, þrælandi í dýflissunni..........

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Loforð..........

Þessi pistill var fluttur í morgunþætti Kiss FM 89,5 fimmtudaginn 24 ágúst 2006.
Æ þetta er svo vont! Það er svo vont að lesa um að menn sjái að þeir hafi verið á villigötum. Það er hinsvegar jafn gott að lesa að hinir sömu menn hafi séð að sér og eru menn til að viðurkenna villur síns vegar. Bara að þeir væru nú í aðstöðu til að gera eitthvað í málunum og leiðrétta villurnar.

Þannig las ég í Fréttablaðinu um daginn um langlokuræðu fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins. Þar viðurkenndi formaðurinn fyrrverandi – sem að því er virðist ný stjórnmálastefna, svokallaður Halldórismi er kennd við – að ekki hafi tekist sem skyldi í baráttunni við hinn slæga og illviðráðanlega fíkniefnadjöful. Þar með var formaðurinn, fyrrverandi, að viðurkenna að eitt af stefnumálum þessa annars undarlega stjórnmálaflokks hafi ekki gengið eftir. Þannig var nefnilega mál með vexti að flokkurinn hafði lofað, fyrir einhverjar kosningarnar, að leggja milljarð – já ég segi og skrifa eitt þúsund milljónir – í baráttuna gegn þessum vágesti en nú viðurkenndi formaðurinn að ekki hafi gengið sem skyldi í baráttunni. Hann sagði margar orrustur hafi tapast í þessu stríði, sem ekki hafi gengið sem skyldi. Þá lagði hann áherslu á að efla þyrfti löggæsluna í landinu og gefa henni auknar heimildir í þessari baráttu. Þetta er bara eitt af skipbrotum Framsóknarflokksins og stefnu hans. Þetta er hinsvegar eitthvað það alvarlegasta skipbrot sem hægt er að bíða því það er í raun ekki aftursnúið þegar komið er út í þvílíkar ógöngur og við Íslendingar erum komin í í þessari baráttu og undanlátssemi gagnvart sölumönnum dauðans. Sölumönnum, sem byrla börnum okkar eitur daglangt og flytja inn meira og meira eitur, til að byrla börnunum okkar, af því að við erum svo góð – ég ætti reyndar að segja svo vitlaus – að opna allar okkar dyr upp á gátt fyrir þessa aumingja.

Þannig berast af því fréttir, nánast í hverjum mánuði, að fíkniefni hafi fundist í kílóavís hér og hvar um landið. Þannig bárust t.d. af því fréttir að einhverjir vitleysingar hafi verið teknir með einhver hundruð grömm af amfetamíni og öðrum fíkniefnum í Kópavogi fyrir stuttu og fengið að fara til síns heima að morgni næsta dags. Þannig berast fréttir af einhverjum erlendum vitleysingum flytjandi inn hráefni til framleiðslu fíkniefna hér á landi. Vitleysingar sem komast upp með það að ljúga að dómstólum þessa lands þegar mál þeirra loks rata þangað. Fréttir berast líka af vitleysingum, sem flytja inn E-töflur og ætla svo að fara í mál við íslenska ríkið af því að þeir voru handteknir með draslið og dæmdir og töldu sig ekki fá sanngjarna meðferð.
Hvar var sanngirni þeirra þegar þeir ákváðu að byrla börnum okkar eitur?
Fréttir sem þessar voru næsta fáheyrðar fyrir einum sex árum og þar fyrr. Þá bárust af því fréttir að einhver sölumaður dauðans hafi verið gripinn með tíu grömm eða svo af amfetamíni og að sá hinn sami hafi verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald vegna rannsóknar málsins.

Hvað hefur breyst? Jú það hefur breyst að við erum farin að taka linar og linar á þessum aumingjum sem daginn út og daginn inn byrla börnum okkar eitur. Við erum farin að sætta okkur við orðinn hlut og viðurkenna fyrir sjálfum okkur, líkt og formaðurinn fyrrverandi, að við höfum ekki gengið til góðs götuna fram um veg.

Við erum farin að viðurkenna að við höfum, líkt og stjórnvöld þessa lands, skellt skollaeyrum við þeim aðvörunarbjöllum sem hafa klingt hjá forvarnar-, löggæslu og meðferaðaraðilum, sem einna mest vit ættu að hafa á þessum málaflokki. Við erum farin að viðurkenna að við skelltum skollaeyrum við röddum samtaka evrópuborga gegn fíkniefnum. Við erum að gefast upp!!!
Kannski við ættum bara að gera – öll – eins og formaðurinn fyrrverandi og segja bara af okkur af því að vandamálið er orðið svo stórt að við ráðum ekki við það. Formaðurinn fyrrverandi axlaði þó þá ábyrgð, sem fylgdi formannsstólnum, og sagði af sér formennsku og ráðherradómi af því að hann – held ég – áleit að fylgistap flokksins t.d. í sveitarstjórnarkosningum væri að hluta til hans vandamál.

Jú formaðurinn fyrrverandi er maður að meiri fyrir að viðurkenna að hann og flokkurinn hans hafi vaðið í villu og svíma í fíkniefnamálaflokknum en það nær bara, því miður, svo langt sem það nær. Það að segja af sér hefur engan tilgang nema eitthvað sé gert til að lagfæra þau mistök sem gerð hafa verið og þar er Grettistaki að lyfta. Ekki bara í fíkniefnamálaflokknum heldur líka í öðrum og ekki síður veigamiklum málum.

Ég held að afarsælast verði fyrir stjórnmálaskörunga þessa lands að reyna að velja sér ráðgjafa sem hafa kjark, dug og þor til að segja þeim að nýju fötin Keisarans séu í raun og veru ekki föt heldur sé Keisaragreyið haft að háði og spotti meðal almennings fyrir það að ganga nakinn um götur og torg þessa lands. Þá fyrst fer að birta yfir og sjást til sólar. Þá fyrst fer að nást árangur í baráttunni við sölumenn dauðans. Þá fyrst detta þeir út úr skúmaskotum samfélagsins, sem hafa verið að gefa ill ráð og hagnast á öllum óþverranum sjálfir. Þá fyrst verður hægt að taka á ólöglegu verðsamráði og öðrum lögbrotum, sem þegnar þessa lands hafa þurft að láta yfir sig ganga.
Þá fyrst verður Adam áfram í Paradís.

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Nýtt leikfang..........

Hérna sjáið þið mynd af nýja leikfanginu mínu. Yamaha V Star 1100 árgerð 2000. Hrikalega gaman að hjóla á þessu..........

mánudagur, ágúst 21, 2006

Milljarð..........

..........eittþúsundmilljónir, í lítið sem ekki neitt.
Milljarð í baráttuna gegn fíkniefnum var eitt af kosningaloforðum Framsóknarflokksins, fyrir einhverjar kosningarnar á meðan þeir sátu að kjötkötlunum með Sjálfstæðisflokknum, undanfarin ár.

Af hverju segi ég: Milljarð í lítið sem ekki neitt............jú einfaldlega af því að ég var að lesa - forsíðugrein í Fréttablaðinu í fyrradag (laugardaginn 19 ágúst) - umfjöllun um ræðu Halldórs Ásgrímssonar, fráfarandi formanns Framsóknarflokksins. Þar sagðist hann hljóta að viðurkenna að stjórnvöldum hefði ekki tekist nægilega vel upp í baráttunni gegn fíkniefnavágestinum og að herða þyrfti tökin með því að efla löggæsluna og gefa henni auknar heimildir í baráttunni. Þess vegna segi ég: Milljarð í lítið sem ekki neitt því Framsóknarflokkurinn hafði lofað því að setja milljarð í baráttuna gegn fíkniefnum og innflutningi þeirra en nú viðurkennir formaðurinn fyrrverandi (alltaf auðvelt að viðurkenna mistök þegar maður er að hverfa af sjónarsviðinu) að ekki hafi til tekist sem skyldi. Þannig hafi margar orrusturnar tapast í þessu stríði og ég segi reyndar að stríðið hafi tapast!!! Og af hverju skyldi ég henda fram slíkum sleggjudómum, jú einfaldlega af því að á undanförnum árum hafa orðið alltof miklar tilslakanir þegar kemur að fíkniefnum og innflytjendur og neytendur fíkniefna komast upp með miklu, miklu meira heldur en t.d. þeir gátu leyft sér fyrir u.þ.b. 8 árum. Það er nefnilega þannig með þetta helvíti að um leið og byrjað er að slaka á er stríðið tapað. Þetta hafa margir sérfræðingarnir, innlendir sem erlendir, ítrekað bent á. Þannig hafa t.d. evrópusamtök borga gegn fíkniefnum einnig bent á þessa óumflýjanlegu staðreynd lífsins og skúmaskota þess en stjórnvöld hér á landi hafa ítrekað skellt skollaeyrum við boðskapnum. Þess vegna er nú svo komið að innflutningur og neysla ólöglegra vímuefna er sem aldrei fyrr og umræðan um þau komin á það stig að í raun er ekki hægt annað en hlæja að öllu saman og á sama tíma að prísa sig sælan með að manns nánustu ánetjast ekki þessum sölumönnum dauðans.

Það er dásamlegt afrekið Framsóknarflokksins til að stuðla að fíkniefnalausu Íslandi..........

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Talaði og talaði..........

..........og malaði og malaði. Þannig hljómar umræðan um skatta- og ofurlaunamál þessa dagana. Talað og talað og malað og malað en ekkert gert, frekar en venjulega. Allir hneykslaðir á því að menn og konur skuli telja fram slík laun, nú eða ekki - en hefðu átt að gera það - að mati malaranna. Spekingar spjalla og spjalla og koma fram með allskyns sniðugar hugmyndir, að eigin mati, um hvernig hægt væri að leiðrétta þetta allt saman og koma á alsælu útópíu þar sem allir hafa jafnt til hnífs og skeiðar. Margir spekingarnir myndu sjálfsagt sjálfir, ef þeir væru í aðstöðu til þess, sleppa því að telja eitthvað fram af því sem þeir hafa halað inn og hneykslast svo á öllu saman..........
Ég segi enn og aftur, burt með tekju- og eignaskattinn og emírinn tekur inn sitt í neyslusköttum, af stóru Hummerunum, Porsche-unum, Benz-unum, flugvélunum, utanlandsferðunum, bensíninu (sem reyndar er gert núna allverulega), ryðfríu grillunum, sólpöllunum, heitu pottunum o.s.frv..........

mánudagur, ágúst 07, 2006

Hate me..........

Hate me today
Hate me tomorrow
Hate me for all the things I didn´t do for you

Hate me in ways
Yeah ways hard to swallow
Hate me so you can finally see what´s good for you

And with a sad heart I say bye to you and wave
Kicking shadows on the street for every mistake that I had made
And like a baby boy I never was a man
Until I saw your blue eyes cry and I held your face in my hand
And then I fell down yelling "Make it go away!"
Just make a smile come back and shine just like it used to be
And then she whispered "How can you do this to me?"

Hate me today
Hate me tomorrow
Hate me for all the things I didn´t do for you

Hate me in ways
Yeah ways hard to swallow
Hate me so you can finally see what´s good for you
(Blue October)

The Man comes around...........

And I heard as it were, the noise of thunder
One of the four beasts saying: "Come and see" and I saw
And behold a white horse

There is a Man going round taking names and He decides
Who to free and who to blame
Everybody won´t be treated quite the same
There will be a golden ladder reaching down
When the Man comes around
The hairs on your arm will stand up
at the terror in each Sip and each sup
Will you partake of that last offered cup
Or disappear into the potter´s ground
When the Man comes around
(John R. Cash)

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Skattsvik, o.fl..........

Þessi pistill var fluttur í morgunþætti Kiss FM 89,5 miðvikudaginn 02 ágúst 2006.

Ég sá við þessu öllu saman!!!!

Stuttbuxnadrengirnir héldu að ég ætlaði að skoða hvað þeir hafa verið að borga í skatta en ég mætti bara ekkert til að skoða álagningarseðlana þeirra á skrifstofu ríkisskattstjóra.
Þeir voru búnir að bíða þarna, greyin, í marga klukkutíma og ætluðu sko aldeilis að sitja fyrir mér og koma í veg fyrir að ég gæti skoðað hvað þeir og aðrir hafa verið að borga í skatta nú og kannski bara líka hvað sumir hafa EKKI verið að borga í skatta.

Ég einfaldlega skoðaði bara nýjasta tölublað Frjálsrar Verslunar, þar sem fyrir liggja upplýsingar um skattskil um 2400 nafntogaðra Íslendinga, ekki fyrr heldur bara nú.
Ég sá þarna að forsetinn er hæst launaði forsetinn á Íslandi og forsætisráðherrann er hæstlaunaði forsætisráðherrann á Íslandi.
Ég sá líka að sumir alþingismenn eru hæst launuðu alþingismenn á Íslandi og margir forstjórar eru líka hæstlaunuðu forstjórar á Íslandi. Þannig eru líka margir bankastjórar upptaldir og kom mér nokkuð á óvart að sjá að þeir eru, sumir hverjir, hæst launuðu bankastjórar á Íslandi.

Nú þarna var líka að finna upplýsingar um verðsamráðsolíufursta, sem eru EKKI lengur hæstlaunuðu verðsamráðsolíufurstar á Íslandi og virðast varla eiga til hnífs og skeiðar nú, ef marka má upplýsingarnar í þessu tímariti.
Ég fylltist vorkunnsemi, og átti erfitt með að fella ekki tár, þegar ég sá hversu hátt fallið hafði verið úr söðlinum, sem riðið var í feitum hesti hér á árum áður og það skaust upp í kollinn á mér að fara af stað með landssöfnun til að nurla saman örlitlu fé handa bágstöddum fyrrverandi verðsamráðsolíufurstum. Ég er viss um að margir Íslendingar myndu láta fé af hendi rakna handa þessum góðmennum, sem sáu til þess að sama hvert við fórum greiddum við sama verð fyrir sama bensínið úr sömu tunnunni.
Ég var líka að hugsa um að hrinda af stað innhringisöfnun til að safna fé fyrir fleiri bágstadda, fyrrverandi stórgróssera, sem virðast eiga um sárt að binda núna og komast ekki einu sinni á blað yfir 2400 hæst launuðu menn og konur á Íslandi. Ég yrði náttúrulega sjálfur þar á meðal því ekki náði ég á listann en ég fell því miður ekki í flokkinn STÓRGRÓSER. Ég yrði bara að passa mig að fá einhvern annan til að safna mínum peningum þ.a. ekki væri hægt að væna mig um spillingu og samráð í fjáröflunum síðar meir.

Nei stuttbuxnadrengirnir hræða mig sko ekki með sínum skæruhernaði á skrifstofu ríkisskattstjóra og þeir skulu sko ekki halda það að ÉG komist ekki yfir upplýsingar um hver er að greiða hverjum hvað og hver er að svíkjast um að greiða Emírnum það sem Emírsins er. Það er nefnilega ljótt að stela sagði hún amma mín mér. Eftir því hef ég reynt að fara í mínu lífi til þessa og glaður greitt Emírnum alla mína skatta og stundum meira en til var ætlast af mér, bara rétt til að tryggja að nóg væri til handa fátækum verðsamráðsolíufurstum þegar þeir þurfa að sækja um bætur til að geta greitt laun heimilishjálparinnar því Guð forði þeim og þeirra frá því að dýfa hendi í kalt vatn.

Til er engilsaxneskt máltæki, sem segir eitthvað í þessa veru “It ain´t over till the fat lady sings” og ég get sagt ykkur það að mér er ekki hlátur í huga eftir að hafa lesið þvílíkar skáldsögur margir af þessum 2400 nafntoguðu Íslendingum komast upp með að skálda og senda inn í árlega skáldsagnakeppni ríkisskattsjóra.
Mér var heldur ekki hlátur í huga þegar ég ræddi um það hér um daginn að mér hafi ekki komið það á óvart að heyra að skattrannsóknarstjóri hefði af því áhyggjur að fleiri og fleiri Íslendingar fari með eignir sínar, tekjur og annað úr landi til að komast hjá því að greiða til Emírsins það sem hans er.
Mér er yfirleitt ekki hlátur í huga þegar ég sé að menn komast upp með það að stela frá þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu.
Mér er yfirleitt ekki hlátur í huga þegar ég frétti af því að menn komast upp með það að borga ekki það sem þeim ber til heilsugæslunnar og menntakerfisins á Íslandi og ætlast svo sjálfir til þess að fá fyrsta flokks þjónustu.

Stuttbuxnadrengirnir ættu að skammast sín fyrir að reyna að hindra fólk í því að fletta ofan af skattsvikurum. Þeir ættu líka að skammast sín fyrir það að hylma yfir með þjófum því skattsvik eru ekkert annað en hreinn og klár þjófnaður. Þjófnaður frá þeim sem minna mega sín og það sem verra er þjófnaður frá börnunum okkar, foreldrum, ömmum og öfum, sem þurfa á þeim peningum að halda sem til samneyslunnar fara.

Þess vegna segi ég, enn og aftur, að skoða eigi þann möguleika að einfalda skattkerfið á Íslandi með því að taka upp neysluskatta, eingöngu, í stað þessa óréttláta tekjuskattkerfis sem nú er við lýði og annar hver maður og amma hans reyna að svindla á, og svindla á og stela frá sjálfum sér í leiðinni.

Ég er að hugsa um að fara í sumarfrí......................................