..........í Reykjavík og reyndar á landinu öllu hefur verið mikið í umræðu fjölmiðla undanfarið og þannig heyrði ég t.d. í gær (29 ágúst) í "Reykjavík síðdegis" viðtal við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Ég reyndar heyrði ekki allt viðtalið en heyrði þó að Ráðherrann hafði greinilega verið spurður eitthvað út í stofnun leyniþjónustu á Íslandi, sem og almennt ástand löggæslumála. Á svörum ráðherra mátti heyra að hann væri hæstánægður með störf lögreglu t.a.m. í fíkniefnamálaflokknum, sem er allt gott og vel. Þannig er hinsvegar mál með vexti að lögreglan sinnir ýmsum öðrum málaflokkum og alls ekki síður mikilvægum en fíkniefnamálaflokknum svokallaða. Þar má t.d. nefna umferðarmál, kynferðisbrot, líkamsmeiðingar, auðgunarbrot, forvarnir og svona mætti afar lengi telja því segja má að allt það sem mannskepnan gerir á einn eða annan hátt geti leitt af sér afskipti lögreglu af þegnum þessa lands. Til þess þarf lögreglan að sjálfsögðu mannafla og tækjabúnað, sem þarf, hvorutveggja, að vera nægur og af bestu fáanlegu gerð hverju sinni. Ég tek það sérstaklega fram hér að ég styð heilshugar við bakið á Ráðherranum með þær ráðagerðir, sem hann er með á prjónunum um t.d. stofnum greiningardeildar og nú síðar um stofnun leyniþjónustu, sem löngu er orðið tímabært.
Mér segir svo hugur, eftir að hafa þvælst mikið um í umferðinni í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum að umferðarlöggæsla sé af skornum skammti. Ég man t.d. þá tíð að hafa séð lögreglubíla og mótorhjól úti í vegarkanti þar sem verið var að hraðamæla ÖLL ökutæki, sem ekið var tilteknar götur. Slíkt hef ég ekki séð í háa herrans tíð.
Ég man það líka að hafa séð "heldri" lögreglumenn á gangi um miðborgina að degi til, þar sem þeir gáfu sig á tal við fólkið á götunni. Slíkt hef ég ekki séð lengi.
Ég man þá tíð að lögreglustöð var í miðborg Reykjavíkur. Slíkt hef ég ekki séð lengi.
Ég man þá tíð að hafa séð myndir í dagblöðum af hreyknum lögreglumönnum, sem nýkomnir voru með réttindi til að starfa á mótorhjólum. Slíkt hef ég ekki séð lengi.
Ég man þá tíð að Óskar heitinn Ólason, yfirlögregluþjónn umferðardeildar lögreglunnar var myndaður á gatnamótum Snorrabrautar og Laugavegar upp úr miðjum desembermánuði, þar sem hann var að "kveikja á jólaumferðinni". Slíkt hef ég ekki séð lengi. Held reyndar að sérstök staða yfirlögregluþjóns umferðardeildar lögreglunnar í Reykjavík sé ekki til lengur þrátt fyrir gífurlega aukningu vélknúinna farartækja í lögsagnarumdæmi lögreglunnar í Reykjavík og gríðarlega stækkun sama lögsagnarumdæmis og fólksfjölgun innan þess, sem nú nær frá Gróttuvita í vestri og upp í Hvalfjarðarbotn í austri / norðri.
Ég man eftir því að hafa einhvern tíma heyrt af því að lögreglan í Reykjavík ætti einhver fimmtán (15) lögreglumótorhjól til umferðarlöggæslu, aðallega. Um daginn heyrði ég að þar væru til fimm (5) slík mótorhjól. Breytingin hefur vafalaust verið í takt við aukinn fjölda farartækja í umferðinni, þó mér sé fyrirmunað að skilja samhengið í þessum hlutum.
Ég man þá tíð að Sæmi "Rokk" og Ingimundur voru aðal löggurnar á Seltjarnarnesi og þekktu þar allt og alla. Slíkt hef ég ekki séð lengi.
Ég man eftir því að hafa heyrt um eflingu löggæslu í Grafarvogshverfi Reykjavíkur þar sem lögreglumönnum, í þessu annars fjölmenna hverfi var fjölgað úr sjö (7) í fimm (5).
Ég man líka eftir að hafa heyrt af því fréttir að nú ætti að efla löggæslu í Breiðholtshverfunum þremur (Neðra-, Efra- og Seljahverfum) og að þar ætti alltaf að vera til taks lögreglubifreið, gerð út frá Breiðholtsstöð lögreglunnar. Ég veit ekki til að slíkt hafi gerst enn.
Ég man þá tíð að lögreglan hreykti sér af því að vera nú komin með eina af þyrlum Landhelgisgæslu Íslands í sína þjónustu og nú skyldu sko ökuníðingar og fantar borgarinnar fara að vara sig. Slíkt hef ég ekki séð lengi.
Ég man þá tíð að hafa séð myndir í dagblöðum, af lögreglumönnum að aðstoða gæsir, endur og fleiri íbúa Tjarnarinnar í Reykjavík, að komast á milli tjarnarhlutanna þrigggja. Slíkt hef ég ekki séð lengi. Nú sé ég bara dauðar gæsir og endur á nýju Hringbrautinni, þegar ég á erindi þar um.
Ég veit ekki alveg hvað er að en sennilega er það bara sjónin í mér sem er að versna. Í það minnsta er á yfirmönnum löggæslumála í Reykjavík að heyra að það sé bara allt í lagi. Er allt í lagi að banaslys í umferðinni séu orðin nítján (19) að tölu á þessu ári og þar af, hvorki fleiri né færri en sjö (7) það sem af er ágústmánuði, anno domini 2006? Þá eru ótalin þau mannslíf, sem horfið hafa vegna ofneyslu ýmisskonar fíkniefna, sem flutt hafa verið ólöglega inn til landsins og eru seld á götum, í húsum og á börum borgarinnar.
Þá eru ótalin öll þau heimili og fyrirtæki, sem brotist hefur verið inn í og stolið frá saklausu fólki og skattgreiðendum þessa lands.
Ekki veit ég nákvæmlega hversu mikið íbúum höfuðborgarsvæðisins hefur fjölgað t.d. s.l. tuttugu ár. Þá veit ég heldur ekki hversu mikið farartækjum íbúa þessa sama svæðis hefur fjölgað en mér segir svo hugur að sú fjölgun sé umtalsverð. Mér segir líka svo hugur að löggæslan hafi ekki aukist í takt við aukinn íbúafjölda né aukinn fjölda ökutækja. En eins og ég skrifaði hér að ofan gæti sjón minni svo sem verið farið að hraka með árunum.
Það væri gaman að sjá einhverja úttekt á þessu öllu saman og þá kæmi í ljós hvort að ég þyrfti að fá mér sterkari gleraugu.
Áfram Ísland, áfram Reykjavík..........