miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Skattsvik, o.fl..........

Þessi pistill var fluttur í morgunþætti Kiss FM 89,5 miðvikudaginn 02 ágúst 2006.

Ég sá við þessu öllu saman!!!!

Stuttbuxnadrengirnir héldu að ég ætlaði að skoða hvað þeir hafa verið að borga í skatta en ég mætti bara ekkert til að skoða álagningarseðlana þeirra á skrifstofu ríkisskattstjóra.
Þeir voru búnir að bíða þarna, greyin, í marga klukkutíma og ætluðu sko aldeilis að sitja fyrir mér og koma í veg fyrir að ég gæti skoðað hvað þeir og aðrir hafa verið að borga í skatta nú og kannski bara líka hvað sumir hafa EKKI verið að borga í skatta.

Ég einfaldlega skoðaði bara nýjasta tölublað Frjálsrar Verslunar, þar sem fyrir liggja upplýsingar um skattskil um 2400 nafntogaðra Íslendinga, ekki fyrr heldur bara nú.
Ég sá þarna að forsetinn er hæst launaði forsetinn á Íslandi og forsætisráðherrann er hæstlaunaði forsætisráðherrann á Íslandi.
Ég sá líka að sumir alþingismenn eru hæst launuðu alþingismenn á Íslandi og margir forstjórar eru líka hæstlaunuðu forstjórar á Íslandi. Þannig eru líka margir bankastjórar upptaldir og kom mér nokkuð á óvart að sjá að þeir eru, sumir hverjir, hæst launuðu bankastjórar á Íslandi.

Nú þarna var líka að finna upplýsingar um verðsamráðsolíufursta, sem eru EKKI lengur hæstlaunuðu verðsamráðsolíufurstar á Íslandi og virðast varla eiga til hnífs og skeiðar nú, ef marka má upplýsingarnar í þessu tímariti.
Ég fylltist vorkunnsemi, og átti erfitt með að fella ekki tár, þegar ég sá hversu hátt fallið hafði verið úr söðlinum, sem riðið var í feitum hesti hér á árum áður og það skaust upp í kollinn á mér að fara af stað með landssöfnun til að nurla saman örlitlu fé handa bágstöddum fyrrverandi verðsamráðsolíufurstum. Ég er viss um að margir Íslendingar myndu láta fé af hendi rakna handa þessum góðmennum, sem sáu til þess að sama hvert við fórum greiddum við sama verð fyrir sama bensínið úr sömu tunnunni.
Ég var líka að hugsa um að hrinda af stað innhringisöfnun til að safna fé fyrir fleiri bágstadda, fyrrverandi stórgróssera, sem virðast eiga um sárt að binda núna og komast ekki einu sinni á blað yfir 2400 hæst launuðu menn og konur á Íslandi. Ég yrði náttúrulega sjálfur þar á meðal því ekki náði ég á listann en ég fell því miður ekki í flokkinn STÓRGRÓSER. Ég yrði bara að passa mig að fá einhvern annan til að safna mínum peningum þ.a. ekki væri hægt að væna mig um spillingu og samráð í fjáröflunum síðar meir.

Nei stuttbuxnadrengirnir hræða mig sko ekki með sínum skæruhernaði á skrifstofu ríkisskattstjóra og þeir skulu sko ekki halda það að ÉG komist ekki yfir upplýsingar um hver er að greiða hverjum hvað og hver er að svíkjast um að greiða Emírnum það sem Emírsins er. Það er nefnilega ljótt að stela sagði hún amma mín mér. Eftir því hef ég reynt að fara í mínu lífi til þessa og glaður greitt Emírnum alla mína skatta og stundum meira en til var ætlast af mér, bara rétt til að tryggja að nóg væri til handa fátækum verðsamráðsolíufurstum þegar þeir þurfa að sækja um bætur til að geta greitt laun heimilishjálparinnar því Guð forði þeim og þeirra frá því að dýfa hendi í kalt vatn.

Til er engilsaxneskt máltæki, sem segir eitthvað í þessa veru “It ain´t over till the fat lady sings” og ég get sagt ykkur það að mér er ekki hlátur í huga eftir að hafa lesið þvílíkar skáldsögur margir af þessum 2400 nafntoguðu Íslendingum komast upp með að skálda og senda inn í árlega skáldsagnakeppni ríkisskattsjóra.
Mér var heldur ekki hlátur í huga þegar ég ræddi um það hér um daginn að mér hafi ekki komið það á óvart að heyra að skattrannsóknarstjóri hefði af því áhyggjur að fleiri og fleiri Íslendingar fari með eignir sínar, tekjur og annað úr landi til að komast hjá því að greiða til Emírsins það sem hans er.
Mér er yfirleitt ekki hlátur í huga þegar ég sé að menn komast upp með það að stela frá þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu.
Mér er yfirleitt ekki hlátur í huga þegar ég frétti af því að menn komast upp með það að borga ekki það sem þeim ber til heilsugæslunnar og menntakerfisins á Íslandi og ætlast svo sjálfir til þess að fá fyrsta flokks þjónustu.

Stuttbuxnadrengirnir ættu að skammast sín fyrir að reyna að hindra fólk í því að fletta ofan af skattsvikurum. Þeir ættu líka að skammast sín fyrir það að hylma yfir með þjófum því skattsvik eru ekkert annað en hreinn og klár þjófnaður. Þjófnaður frá þeim sem minna mega sín og það sem verra er þjófnaður frá börnunum okkar, foreldrum, ömmum og öfum, sem þurfa á þeim peningum að halda sem til samneyslunnar fara.

Þess vegna segi ég, enn og aftur, að skoða eigi þann möguleika að einfalda skattkerfið á Íslandi með því að taka upp neysluskatta, eingöngu, í stað þessa óréttláta tekjuskattkerfis sem nú er við lýði og annar hver maður og amma hans reyna að svindla á, og svindla á og stela frá sjálfum sér í leiðinni.

Ég er að hugsa um að fara í sumarfrí......................................

1 Comments:

Blogger Dýza skvíza said...

ohhh þú ert svo flottur í úbartinu :D...góðir pistlar hjá þér ástin mín.

11:22  

Skrifa ummæli

<< Home