Þessi pistill var fluttur, óbreyttur, í morgunþætti Kiss FM 89,5, fimmtudaginn 06 júlí 2006.
"Ísland úr NATO og herinn burt..........eða kjurt??
Nú þegar loksins hyllir undir margra áratuga kröfu herstöðvaandstæðinga og herinn er loksins á leiðinni burt, heyrist mér á umræðunni í þjóðfélaginu að margir vilji hann í raun kjurt. Hvað er eiginlega í gangi? Herstöðvaandstæðingar dagsins í dag og liðinna áratuga eru loksins að fá að upplifa draum sinn á sama tíma og fjölmargar fjölskyldur á Suðurnesjum eru að upplifa martröð herstöðvaandstæðinganna þ.e.a.s. að fyrirvinnur sex hundruð fjölskyldna, eða svo, eru að verða atvinnulausar. Herinn neitar að borga skuldir sínar og standa við skuldbindingar gagnvart opinberum aðilum og einstaklingum af því að hann er á leiðinni burt og við eigum bara að þakka fyrir að hann hafi viljað vera hérna svo lengi sem raun ber vitni.
Ég hef verið að fylgjast svolítið með umræðu um þessi mál síðustu daga og vikur og sá núna síðast viðtal á NFS – sem sent var út í beinni útsendingu úr sölu varnarliðseigna í gamla Blómavalshúsinu – þar sem spekingar spjölluðu um framtíð Íslands í varnar- og öryggismálum. Þar var m.a. bent á þá staðreynd að sú ógn, sem steðjar að þjóðum heimsins í dag er í raun ekki hernaðarlegs eðlis heldur hryðjuverkaógn. Þar komum við í raun að kjarna allrar þessarar umræðu og það er hvernig ætlum við Íslendingar að efla okkar eigin hryðjuverkavarnir og reyna – ég segi reyna – að koma í veg fyrir að við verðum skotmark hryðjuverkahópa, nú eða griðland hryðjuverkamanna, sem leita skjóls í fámenninu og á sama tíma raun fáfræðinni á gangi heimsmálanna?
Ég hef nefnilega þann grun að hér hafi, í áranna rás, margur hryðjuverkamaðurinn “kælt” sig niður eftir voðaverk úti í hinum stóra heimi. Af hverju segi ég þetta? Jú einfaldlega vegna þeirrar staðreyndar að Ísland er kjörland slíkrar kælingar og þeirrar einföldu staðreyndar að þekktir hryðjuverkamenn, t.d. Ali Hassan Salameh, sem var einn höfuðpauranna í morðunum á Ísraelsku íþróttamönnunum á Ólympíuleikunum í Munich 1972 – sem einmitt kvikmyndin Munich fjallar um – “kældi” sig niður, um tíma hjá frændþjóð okkar Norðmönnum. Þangað elti leyniþjónusta Ísraela, Mossad, hann og reyndi að koma honum fyrir kattarnef þar. Þetta er skjalfest dæmi um slíka kælingu hryðjuverkamanna á Norðurlöndum og í raun ekkert sem segir að slíkt hafi ekki eða geti ekki gerst hér. Og hvað segið þið um það hlustendur góðir? Er þetta eitthvað sem við myndum vilja að gerðist hér á landi, þ.e.a.s. ef það hefur í raun ekki þegar gerst og er að gerast, eða viljum við hafa möguleika til, í minnsta lagi, að fylgjast með slíkum óyndismönnum? Ég held að þegar öllu er á botninn hvolft þá viljum við allavega vita hvar slíkir menn halda sig, ef þeir á annað borð koma hingað til lands.
Hvað er þá til ráða, nú þegar hinn almáttugi her Guðs Eigins Lands er á förum? Jú við þurfum að efla okkar eigin varnir og eftirlit og möguleika til upplýsingaskipta við aðrar þjóðir. Það, í sjálfu sér, hefur í för með sér ákveðinn fórnarkostnað, sem m.a. felst í því að við þurfum að koma á fót okkar eigin leyniþjónustu, með öllu því sem henni fylgir, mannafla, tækjabúnaði og lagaheimildum til eftirlits með grunuðum.
Ég sé ekki að við þyrftum að koma upp okkar eigin her en rök mætti þó færa fyrir því að við kæmum upp heimavarnarliði. Her er í eðli sínu apparat til árása og yfirtöku annarra landa og þjóða en ekki til varna. Þar kemur heimavarnarlið til skjalanna.
Mér sýnist líka að útreið okkar á viðskiptasviðinu sé mun vænlegri til árangurs – ef við hefðum hugsað okkur t.d. að yfirtaka Danmörku til að hefna fyrir maðkaða mjölið – frekar en að við færum að koma okkur upp okkar eigin herafla með svimandi háum tilkostnaði. Það vantar líka allan aga í þjóðina til að hún gæti nokkurn tíma þjónað í slíkri stofnun.
Ef við kæmum okkur upp okkar eigin “litlu leyniþjónustu” þyrfti slík stofnun að sjálfsögðu að búa við strangt eftirlit og eðlilegast væri að slíkt eftirlit yrði í höndum Alþingis Íslendinga til að koma í veg fyrir allar óþarfa vangaveltur um lögmæti starfseminnar og þá ramma sem hún starfaði innan. Þar kæmu að eftirlitinu lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar og fulltrúar allra þeirra flokka, sem á Alþingi sitja hverju sinni. Þar með ætti líka að vera hægt að tryggja það að heiðarlegir borgarar þessa lands og annarra landa, sem hingað álpast, fái að ganga hér um götur óáreittir.
Og hvað ætti svo barnið að heita? Ég legg til í öllu stofutalinu að stofnuninni verði gefið heitið Upplýsingastofa því þar ættu að sjálfsögðu að liggja fyrir upplýsingar sem tryggja þjóðaröryggi og hag.
Ég held, satt best að segja, að allir þeir, sem hafa haft uppi efasemdir um réttmæti stofnunar sem þessarar, þurfi lítið að óttast þ.e.a.s. ef þeir hinir sömu halda sig “réttu” megin við lög þessa lands, sem að sjálfsögðu allir þegnar landsins eiga að gera. Þá ættum við Íslendingar að geta lifað saman í sátt og samlyndi við Guð og menn um víða veröld."