laugardagur, júlí 29, 2006

SLUXI 2006..........

Útihátíðin Sluxi 2006 var haldinn, að viðstöddu miklu fjöl- og góðmenni í gærkvöldi 28 júlí 2006 á ónefndum stað innan borgarmarkanna.
Hátíðin fór að öllu leyti vel fram, eins og alltaf, og rataði hver til sinna heima að afloknum hátíðahöldunum.
Undirbúningur fyrir Sluxa 2007 er þegar hafinn..........

Nobody..........

Þann 02 maí s.l. bloggaði ég um "Nobody".
Þannig var mál með vexti að ég hafði verið beðinn um taka ljósmyndir af ákveðnum atburði og einhver sjálfskipaður snillingur, með þessa líka fínu hárkollu, kom upp að mér og bað mig að passa mig á því að taka myndir af fólki sem skipti máli því það vildi enginn horfa á myndir af einhverjum "Nobody".
Ég hef verið að velta þessu svolítið fyrir mér síðan ég átti þetta samtal við snillinginn með fínu hárkolluna. Það sem ég hef verið að velta fyrir mér er kannski helst það "Hver er Nobody?". Ég fékk svar við því í dag 29 júlí 2006 þegar ég las "Blaðið" í dag en á bls. 8 er að finna mynd af Hr. og Frú Nobody að afhenda Geir Haarde, að mér sýnist, helminginn af þeim tekjum sem þau þénuðu í fyrra......
Það er svo gaman að borga skattana sína þegar maður er Nobody...........
Það er kannski ennþá skemmtilegra að vera einn af þeim sem er með hárkollu og heldur að hann sé ekki Nobody???..........

föstudagur, júlí 28, 2006

Greiða skal Emírnum..........

..........það sem Emírsins er.

Ég var að leika mér að reikna, eftir að hafa lesið fréttir á MBL.IS um hæstu skattgreiðendur landsins.

Þannig kemur það út að sá sem hæst gjöld greiðir í Reykjavík, rúmar 160 milljónir, ætti, skv. gefnum forsendum (tæplega 38% skattar og útsvar og 2% hátekjuskattur) að hafa verið með um 400 milljónir í árslaun, sem gera útborgað um 240 milljónir, sem aftur gera um 20 milljónir í ráðstöfunartekjur á mánuði, sem aftur gera um 666 þúsund í ráðstöfunartekjur, hvern einasta dag ársins...................

Ég nennti ekki að reikna m.v. þær forsendur að megnið af þessum tekjum stafaði af fjármagni en eins og alþjóð veit þá er fjármagnstekjuskattur um 10% á Íslandi.

Það er gaman að reikna..........

Skattpíning..........

Þessi pistill var fluttur í morgunþætti Kiss FM 89,5 fimmtudaginn 27 júlí 2006.
Þvílík kvöl og pína!! Ég er skattpíndur frá toppi til táar á Íslandi.
Ég las það í einhverju blaði um daginn að einhver Emír einvhersstaðar í landi svipuðu að stærð og íbúafjölda og Ísland ætlaði að gefa hverjum og einum þegna sinna einhverja þúsundkalla af því að ríkissjóður landsins stæði svo vel. Í greininni kom einnig fram að um 92% allra þegna landsins eru ríkisstarfsmenn. Ofan á þetta allt saman kom líka fram að enginn – ég segi og skrifa ENGINN – tekjuskattur er innheimtur í landi Emírsins!!!

Svo segja menn að gott sé að búa á Íslandi!!!!

Ég þarf, sem almennur launþegi, að borga tæp 38% af öllum mínum tekjum beint til ríkissjóðs og það áður en ég fæ þær í hendur. Svo þyrfti ég, ef ég væri svo stálheppinn að hafa tæpar fjórar komma tvær milljónir í árslaun að borga tvö prósent að auki til emírsins á Íslandi.
Svo þarf ég, þegar ég er búinn að fá lúsarlaunin mín í hendur og ætla nú að kaupa mér eitthvað góðgæti í matinn að borga einhver 14% eða meira af öllum þeim vörum sem ég nota ofan í og utan á mig og mína.
Nú til að komast til að kaupa í matinn o.fl. þarf ég, vesalingurinn, að eiga farartæki. Ég þarf að sjálfsögðu að borga rúm 24% í virðisaukaskatt af farartækinu mínu, beint til emírsins á Íslandi og það kemur að sjálfsögðu ofan á innflutningstollana, aðflutningsgjöldin og hvað þetta nú heitir allt saman, sem þarf að vera búið að borga af farartækinu mínu áður en ég get keypt það og farið að keyra á því. Nú er nú reyndar svo komið að launþegagrey eins og ég get varla keypt mér mikið af eldsneyti á faratækið mitt því bensínlítrinn er kominn í rúmar 130 krónur íslenskar þegar búið er að leggja á hann aðflutningsjöld, vegagjald, jöfnunargjald, virðisaukaskatt og hvað þetta fínerí heitir nú allt saman.

Svo aulaðist ég til að eignast börn, svo að emírinn á Íslandi fengi meira í gullkistuna sína og ég gæti, GLAÐUR, greitt honum meira af öllum afgangstekjunum mínum, eftir að ég er búinn að borga tekjuskatt og útsvar, virðisaukaskatt af matnum ofan í mig og virðisaukaskatt af eldsneytinu sem ég nota á farartækið mitt, sem ég nota til að geta komist í að greiða virðisaukaskattinn af matnum mínum. Emírinn á Íslandi reyndar, af einskærum rausnarskap sínum ákvað að ég skyldi fá, upp að 18 ára aldri barna minna, barnabætur, sem að sjálfsögðu fara lækkandi þegar útgjöldin fara hækkandi.

Ég uni svo sem glaður við mitt og borga bara meiri skatta því ég veit að sköttunum mínum er vel varið í allskyns þarfa hluti eins og t.d. að borga listamannalaun Alþingis til einhverra sérvalinna snillinga sem vantar miklu meiri peninga en mig. Ég veit líka að ég þarf BARA að borga lágmarks þjónustugjöld þegar ég aulast til að veikjast eitthvað smávegis og svo þarf ég líka BARA að greiða hluta af þeim lyfjum sem ég kynni að þurfa að nota þegar ég veikist.

Það er gaman að greiða skatta þegar maður veit að þeim er vel varið í þarfa hluti.

Ég myndi hinsvegar vera hlynntari því að þurfa ekki að borga nema kannski 10% fjármagnstekjuskatt af milljón, milljónunum mínum í stað þess að borga um 38% skatt af laununum mínum en til þess þyrfti ég að vera GROUP – ÉG GROUP. Það eru hinsvegar bara fáir útvaldir, sem geta orðið GROUP.

Ætli ekki væri hægt að koma upp einfaldara skattakerfi. Kerfi sem færri gætu og vildu svindla á og svíkjast um að greiða í?? Ég er nokkuð viss um – þó seint verði sagt að ég sé mikill talnagúru – að hægt væri að gera núverandi skattaumhverfi MANNVÆNNA og um leið auka velmegun í þjóðfélaginu og þ.a.l. færa hinum almenna launþega þær mestu og bestu kjarabætur sem völ er á, með því að fella niður með öllu tekjuskatt og útsvar og færa skattheimtuna yfir í neyslu þegna emírsins. Þannig mætti t.d. setja á flatan 25% virðisaukaskatt á ALLT sem selt er í landi emírsins og með því, held ég, auka tekjur hans líka. Emírinn gæti þá kannski endurgreitt þegnunum eitthvað af innlegginu þegar vel árar og komið þannig enn betur á móts við þarfir sinna þegna.

Emírinn var búinn að ákveða að lækka skattana mína en hætti svo við því að ef hann gerði það færi allt á hvolf í efnahagsmálunum.
Ég efast nú reyndar um að nokkuð verði af því að tekjuskattur, né annar skattur, sem lagður hefur verið á hér á landi, verði nokkurn tíma aflagður því hvað hefði það annað í för með sér en að þegnar emírsins yrðu ánægðir og það má að sjálfsögðu ekki gerast. Þeir gætu þá kannski farið að hugsa um eitthvert fánýti og vitleysu eins og að fara að mótmæla einhverju.

Nei er það nokkuð skrýtið að fréttir berist af því að skattayfirvöld hafi af því áhyggjur að sífellt fleiri Íslendingar leiti í skattaparadísir í útlöndum. Mér finnst það ekki og þessar fréttir koma reyndar seinna, miklu seinna, en ég átti von á. Því er nefnilega þannig farið að þeir sem nóg eiga af peningunum vilja meiri peninga. Þeir eiga líka miklu auðveldara með það að koma þeim undan skattheimtumönnum með því m.a. að flytja sig á milli landa. Þetta sá Hrói Höttur á sínum tíma þegar hann hljóp um skóga Nottinghamskíris og tók peninga frá skattheimtumönnum konungs og færði þá aftur til þeirra sem þurftu þeirra með.

Er gott að búa á ÍslandI?? Ekki finnst þeim það sem nóg eiga af peningum. Allavega ekki ef dæma má af ummælum skattayfirvalda í landi emírsins í norðri.

laugardagur, júlí 22, 2006

Áfram með smjörið.........

Stórfjölskyldan fór í sumarbústaðinn á miðvikudagskvöldið 19 júlí s.l. Farið var með hurðirnar, sem keyptar voru í BYKO og þær settar í húsið. Virkilega fallegar hurðir, sem koma til með að líta mun betur út þegar búið verður að klæða húsið að utan, hvenær svo sem það verður..........

Þetta er svalahurðin komin í..........

Veðrið..........

undanfarið hefur verið dásamlegt. Datt í hug að setja inn eina mynd, sem ég tók fimmtudagskvöldið 20 júlí að loknum reiðhjólatúr um miðborg Reykjavíkur með Dýzu Skvízu og Snorra Halldóri.........

Snæfellsjökull er alltaf jafn dulúðugur..........

föstudagur, júlí 21, 2006

Framsókn til afturfarar..........

Ég var að lesa Morgunblaðið í gær (21 júní) og rakst þar á afar athyglisverða, innsenda, grein eftir Önund Ásgeirsson, fyrrverandi forstjóra Olíufélagsins.
Önundur fjallar um Framsóknarflokkinn í grein sinni og fer heldur myrkum orðum um þann stjórnmálaflokk. Nokkuð sem kemur mér ekki mikið á óvart en afar sjaldgæft er að lesa svo opinskáar og beinskeittar greinar í dagblöðum.
Grípum aðeins niður í grein Önundar: "Framsóknarflokkurinn er mesti sérhagsmunaflokkur landsins og hefir á þessum tíma lagt undir sig alla afurðasölu landbúnaðarins og öll mjólkurbú og samsölur landsins sem hófst með því að Korpúlfsstaðir voru gerðir óstarfhæfir með samþykkt mjólkurlaganna frá Alþingi sem lögðu allan markaðinn í Reykjavík undir stjórn Mjólkursamsölunnar. Síðan var ráðist gegn gamla Íslandsbanka, sem var yfirtekinn með lögum frá Alþingi 1930 (sjá lagasafn 1945 bls. 223/5)........ Forsætisráðherra sagði af sér vegna úrslita sveitarstjórnakosninganna. Hann er eini framsóknarmaðurinn með fullu viti í flokknum! Hvar eru hinir níu?"
Þessi sérhagsmunapólitík, sem lýst er hér að ofan, og það sem ég fjallaði um hér á þessari síðu þann 20 júní s.l. undir fyrirsögninni "Spekingar Spjalla" lýsir afar vel, að mínu mati, Framsóknarflokknum.
Nei ég segi NEI við Framsóknarflokknum..........

fimmtudagur, júlí 20, 2006

Hvað kemur mér þetta við??........

Þessi pistill var fluttur í morgunþætti Kiss FM 89,5 fimmtudaginn 20 júlí 2006.
Ég verð nú eiginlega að byrja á því að biðja ykkur afsökunar á raddleysi mínu, sem stafar af einhverri sýkingu í hálsi mínum sem er þó ekki nógu merkilegt til að rata á síður Fréttablaðsins........

Ég hef verið undanfarið að fylgjast með ástandinu fyrir botni Miðjararhafs í aldagamalli deilu Ísraels- og Palestínumanna. Þar er, enn eina ferðina, allt að sjóða upp úr og það þrátt fyrir að þarna hafi verið starfandi friðargæsla á vegum Sameinuðu Þjóðanna áratugum saman, eða allt frá árinu 1958 í Líbanon.

Allt hófst þetta í raun – þó sagan sé að sjálfsögðu miklu miklu lengri – með formlegri stofnun Ísraelsríkis árið 1947 sem í raun var stofnað með samþykkt allsherjarþings Sameinuðu Þjóðanna nr. 181 þar sem landsvæðinu var skipt upp á milli gyðinga og araba í hlutföllunum 55 á mót 45 prósentum. Jerúsalem átti að verða undir alþjóðlegri stjórn Sameinuðu Þjóðanna. Það má segja að síðan þá hafi allt logað í ófriði á þessu svæði, með afar litlum hléum og nú erum við að sjá enn einn slíkan ófriðinn, sem var þó nokkuð fyrirsjáanlegur í kjölfar þess að Hezbollah hreyfingin náði auknum styrk á Líbanska þinginu og Hamas hreyfingin á því Palestínska. Báðar þessar hreyfingar eru yfirlýstar, sem hryðjuverkasamtök, af t.d. Bretlandi, Bandaríkjunum, Ísrael og Kanada og Ástralía og Evrópusambandið hafa einnig yfirlýst Hamas hreyfinguna sem hryðjuverkasamtök.

Allt er þetta komið í mikinn hnút, sem afar erfitt er að leysa og enn eitt dæmið um máttleysi alþjóðasamfélagsins til að leysa deilur sem þessa.

Dæmi um máttleysi alþjóðasamfélagsins, til að leysa svona deilur er hægt að skoða allt frá suður Evrópu og Balkanskaganum til Asíu, til Afríku, til suður- og mið Ameríku til Karabíska hafsins og svona mætti lengi telja.

Kannski mætti líka skoða þetta allt saman í því samhengi hvar stórveldi hvers tíma eiga hagsmuna að gæta t.d. varðandi olíu, jarðmálma og aðrar náttúruauðlindir en það eru að sjálfsögðu aldrei fluttar fréttir af þvíumlíku.

Kannski verður innan skamms komið á stríði á litla Íslandi til að ná yfirráðum yfir raforkunni okkar, sem framleidd verður úr öllum þeim miðlunarlónum sem verið er að byggja upp um fjöll og firnindi. Hver veit? Það ætti allavega að vera auðvelt nú þegar enginn verður herinn frá Guðs Eigin Landi til að vernda okkur fyrir vondu köllunum.

Nei það er gott að búa á jafn friðsælum stað og Íslandi og heyra bara af því óminn að eitthvað vont sé að gerast úti í hinum stóra og ljóta heimi og sjá svo kannski annaðslagið umfjöllun um það þegar eitthvert Group Groupið þarf að senda einhverjar þotur til átakasvæði til að pikka þar upp einhverja flækings tæknimenn sem óvart urðu innlyksa í miðjum stríðsátökum. Þá er gott að vita til þess að Utanríkisráðuneytið standi vaktina og sendi sitt fólk á staðinn eins og riddara á hvítum hestum til að bjarga málunum. Ég vona bara að kostnaðurinn við þetta verði ekki rifinn úr vasa mínum og tekinn af mínum vesalingsskattpeningum því þeim er að sjálfsögðu mun betur varið í það að borga bætur til einhverra yfirlækna sem einhver gæða- og mannauðsstjórnunin á einhverri sjúkrastofuninni hefur klúðrað málunum hjá. Þessir menn allir ættu að leita sér fyrirmynda hjá fólki, sem kanna að spara og fara með fé. Fólki sem alltaf er í fréttum og eyddi á sínum tíma ekki nema um tuttugu þúsund krónum á mánuði eða svo í að halda upp fimm manna fjölskyldu í mat og drykk heilan mánuð.

Það er nefnilega ekki bara úti í hinum stóra heimi þar sem undur og stórmerki gerast. Það er líka ýmislegt stórmerkilegt – sem ratar á forsíður fréttablaðanna hér heima – að gerast á Landinu Bláa. Þannig sagði t.d. Fréttablaðið frá því í gær miðvikudag, með skoti á forsíðu og hér um bil hálfsíðu grein á blaðsíðu 34 að Bryndís Schram hefði haft nóg að gera undanfarið við að að passa Sesar, sem er Chihuahua hundur dóttur dóttur hennar. Á sömu blaðsíðu er líka sagt frá því að Sigurjón Sighvatsson hafi keypt sér Barbie dúkku í peysufötum í gegnum E-bay. Hvað kemur mér þetta við? Eru þetta kannski mjúkar jákvæðar fréttir af fólki??

Ég bara spyr, hvað er eiginlega í gangi hérna??

Er virkilega ekkert meira markvert að gerast í veröldinni??..............
Hægt er að lesa meira á:

fimmtudagur, júlí 13, 2006

Vér mótmælum..........

Þessi pistill var fluttur í morgunþætti Kiss FM 89,5 fimmtudaginn 13 júlí 2006.
Ég hef verið að pæla svolítið í því að mótmæla.

Ég hætti svo reyndar að pæla í því að mótmæla því að í fyrsta lagi þá var ég ekki alveg viss um hverju ég ætti að mótmæla og í öðru lagi þá hef ég séð á fjölmiðlaumræðu liðinnar viku að það gæti verið slæmt að mótmæla einhverju sem er að plaga sannfæringu manns. Þannig lenti t.d. forsetinn í því að mótmæla einhverju í gamla daga, þegar hann var “BARA” bundinn af sannfæringu sinni og samvisku við störf á hinu háa Alþingi. Hann lenti svo aftur í því að bjóða óvart manni, sem hann hafði mótmælt, í laxveiði, á minn kostnað og annarra skattgreiðenda. Þarna sá ég að það borgar sig bara ekkert að vera að pæla í því að mótmæla. Þetta kemur bara allt saman í rassgatið á manni aftur og maður gæti jafnvel lent í því að verða vandræðalegur fyrir það eitt að bjóða mótmæltum vini sínum í lítinn laxveiðitúr – allt innifalið – á kostnað annarra.

Ég bara skil þetta eiginlega ekki og því hreinlega hætti ég að pæla í því að mótmæla. Það er líka svo fjandi vont orðið að finna eitthvað alvöru dæmi til að mótmæla. Nú er herinn að fara og ekki þýðir að mótmæla veru hans lengur, eins og reyndar forsetinn hafði líka gert. Kárahnjúkar verða virkjaðir, hvað sem hver mótmælir um annan þverann svo ekki þýðir neitt að mótmæla því. Svo gæti maður nú bara líka lent í því, ef maður mótmælti einhverri virkjun einhversstaðar að maður fengi bara ekkert að kaupa neitt rafmagn eða hita þegar búið verður að selja allt þetta drasl einhverjum, sem enga peninga eiga og nota bara gróðann af því sem þeir keyptu á slikk, af mér, til að borga mér fyrir það sem þeir keyptu af mér á slikk.

Ekki þýðir að mótmæla bensínhækkunum því þá koma bara meiri bensínhækkanir í kjölfarið og olíufélögin breyta bara aðferðum sínum við að samræma verðskrárnar því engar fá þeir skammirnar hvort sem er fyrir að vera með verðsamráð yfir höfuð, sem þó er ólöglegt.

Nei það er miklu betra að sitja bara heima, bora í nefið og láta sig dreyma um hvað HEFÐI nú hugsanlega gerst ef maður HEFÐI mótmælt einhverju af sannfæringu. Þá HEFÐI maður kannski lent óvart í því að geta varla eða illa boðið einhverjum vini sínum, sem maður HAÐFI mótmælt einhvern tíma, í laxveiði.

Í stað þess að mótmæla ætti maður miklu frekar að gera eins og Jón Gnarr gerir og stunda fjarnám í gegnum Google og Wikipedia. Það er bara verst að þessi fróðleikur er ekkert metinn neinsstaðar, nema þá kannski ef maður er nógu tungulipur og þægur upp á við og hefur engu mótmælt. Þá gæti maður kannski orðið einhver einhversstaðar og fengið að umgangast þá sem skipta máli. Ég gæti t.d. fengið að ákveða hvað ég ætti að borga fyrir bensínið mitt, hvert sem ég fer, nú eða matinn minn – eða öllu heldur hvað aðrir ættu að borga fyrir bensínið og matinn sinn því mitt væri að sjálfsögðu allt frítt eða öllu heldur borgað af öllum hinum – sem mótmæltu.

Nei ég held að það sé ekkert sniðugt að mótmæla, nema að sjálfsögðu ef “Vér mótmælum allir”, þá skiptu mótmælin kannski einhverju máli og einhverjir neyddust til að hlusta á mótmælendur Íslands. Fyrr en það gerist held ég að ég sé algerlega hættur að pæla í því að mótmæla og einbeiti mér bara frekar að því að finna einhvern sem er til í að bjóða mér í lax.
  • Skoðið dagbókarfærslu dómsmálaráðherra frá 07 júlí 2006 á heimasíðu hans www.bjorn.is
  • Einnig má skoða grein eftir Ólaf Ragnar Grímsson í Þjóðviljanum frá 07 júlí 1983.
  • Þá má einnig skoða Fréttablaðið fá 06 júlí 2006, grein á bls. 10 og bakþanka Jóns Gnarr á baksíðu.

fimmtudagur, júlí 06, 2006

Herinn hvað??????????

Þessi pistill var fluttur, óbreyttur, í morgunþætti Kiss FM 89,5, fimmtudaginn 06 júlí 2006.
"Ísland úr NATO og herinn burt..........eða kjurt??

Nú þegar loksins hyllir undir margra áratuga kröfu herstöðvaandstæðinga og herinn er loksins á leiðinni burt, heyrist mér á umræðunni í þjóðfélaginu að margir vilji hann í raun kjurt. Hvað er eiginlega í gangi? Herstöðvaandstæðingar dagsins í dag og liðinna áratuga eru loksins að fá að upplifa draum sinn á sama tíma og fjölmargar fjölskyldur á Suðurnesjum eru að upplifa martröð herstöðvaandstæðinganna þ.e.a.s. að fyrirvinnur sex hundruð fjölskyldna, eða svo, eru að verða atvinnulausar. Herinn neitar að borga skuldir sínar og standa við skuldbindingar gagnvart opinberum aðilum og einstaklingum af því að hann er á leiðinni burt og við eigum bara að þakka fyrir að hann hafi viljað vera hérna svo lengi sem raun ber vitni.

Ég hef verið að fylgjast svolítið með umræðu um þessi mál síðustu daga og vikur og sá núna síðast viðtal á NFS – sem sent var út í beinni útsendingu úr sölu varnarliðseigna í gamla Blómavalshúsinu – þar sem spekingar spjölluðu um framtíð Íslands í varnar- og öryggismálum. Þar var m.a. bent á þá staðreynd að sú ógn, sem steðjar að þjóðum heimsins í dag er í raun ekki hernaðarlegs eðlis heldur hryðjuverkaógn. Þar komum við í raun að kjarna allrar þessarar umræðu og það er hvernig ætlum við Íslendingar að efla okkar eigin hryðjuverkavarnir og reyna – ég segi reyna – að koma í veg fyrir að við verðum skotmark hryðjuverkahópa, nú eða griðland hryðjuverkamanna, sem leita skjóls í fámenninu og á sama tíma raun fáfræðinni á gangi heimsmálanna?
Ég hef nefnilega þann grun að hér hafi, í áranna rás, margur hryðjuverkamaðurinn “kælt” sig niður eftir voðaverk úti í hinum stóra heimi. Af hverju segi ég þetta? Jú einfaldlega vegna þeirrar staðreyndar að Ísland er kjörland slíkrar kælingar og þeirrar einföldu staðreyndar að þekktir hryðjuverkamenn, t.d. Ali Hassan Salameh, sem var einn höfuðpauranna í morðunum á Ísraelsku íþróttamönnunum á Ólympíuleikunum í Munich 1972 – sem einmitt kvikmyndin Munich fjallar um – “kældi” sig niður, um tíma hjá frændþjóð okkar Norðmönnum. Þangað elti leyniþjónusta Ísraela, Mossad, hann og reyndi að koma honum fyrir kattarnef þar. Þetta er skjalfest dæmi um slíka kælingu hryðjuverkamanna á Norðurlöndum og í raun ekkert sem segir að slíkt hafi ekki eða geti ekki gerst hér. Og hvað segið þið um það hlustendur góðir? Er þetta eitthvað sem við myndum vilja að gerðist hér á landi, þ.e.a.s. ef það hefur í raun ekki þegar gerst og er að gerast, eða viljum við hafa möguleika til, í minnsta lagi, að fylgjast með slíkum óyndismönnum? Ég held að þegar öllu er á botninn hvolft þá viljum við allavega vita hvar slíkir menn halda sig, ef þeir á annað borð koma hingað til lands.

Hvað er þá til ráða, nú þegar hinn almáttugi her Guðs Eigins Lands er á förum? Jú við þurfum að efla okkar eigin varnir og eftirlit og möguleika til upplýsingaskipta við aðrar þjóðir. Það, í sjálfu sér, hefur í för með sér ákveðinn fórnarkostnað, sem m.a. felst í því að við þurfum að koma á fót okkar eigin leyniþjónustu, með öllu því sem henni fylgir, mannafla, tækjabúnaði og lagaheimildum til eftirlits með grunuðum.
Ég sé ekki að við þyrftum að koma upp okkar eigin her en rök mætti þó færa fyrir því að við kæmum upp heimavarnarliði. Her er í eðli sínu apparat til árása og yfirtöku annarra landa og þjóða en ekki til varna. Þar kemur heimavarnarlið til skjalanna.
Mér sýnist líka að útreið okkar á viðskiptasviðinu sé mun vænlegri til árangurs – ef við hefðum hugsað okkur t.d. að yfirtaka Danmörku til að hefna fyrir maðkaða mjölið – frekar en að við færum að koma okkur upp okkar eigin herafla með svimandi háum tilkostnaði. Það vantar líka allan aga í þjóðina til að hún gæti nokkurn tíma þjónað í slíkri stofnun.

Ef við kæmum okkur upp okkar eigin “litlu leyniþjónustu” þyrfti slík stofnun að sjálfsögðu að búa við strangt eftirlit og eðlilegast væri að slíkt eftirlit yrði í höndum Alþingis Íslendinga til að koma í veg fyrir allar óþarfa vangaveltur um lögmæti starfseminnar og þá ramma sem hún starfaði innan. Þar kæmu að eftirlitinu lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar og fulltrúar allra þeirra flokka, sem á Alþingi sitja hverju sinni. Þar með ætti líka að vera hægt að tryggja það að heiðarlegir borgarar þessa lands og annarra landa, sem hingað álpast, fái að ganga hér um götur óáreittir.
Og hvað ætti svo barnið að heita? Ég legg til í öllu stofutalinu að stofnuninni verði gefið heitið Upplýsingastofa því þar ættu að sjálfsögðu að liggja fyrir upplýsingar sem tryggja þjóðaröryggi og hag.

Ég held, satt best að segja, að allir þeir, sem hafa haft uppi efasemdir um réttmæti stofnunar sem þessarar, þurfi lítið að óttast þ.e.a.s. ef þeir hinir sömu halda sig “réttu” megin við lög þessa lands, sem að sjálfsögðu allir þegnar landsins eiga að gera. Þá ættum við Íslendingar að geta lifað saman í sátt og samlyndi við Guð og menn um víða veröld."

Ég Group..........

Þessi pistill var fluttur, í lítið breyttri mynd, í morgunþætti Kiss FM 89,5 29 júní 2006. Viðbætur, sem ekki voru fluttar í útvarpi, eru skáletraðar. Þetta var jafnframt fyrsti útvarpspistill sem ég hef flutt.

“Þetta virðist lifa orðið sjálfstæðu lífi! Einn angi er hogginn af skrímslinu en annar sprettur jafnharðan fram og tekur á sig einhverja nýja mynd.

Það nennir enginn orðið að horfa, lesa eða hlusta á þetta nema að sjálfsögðu þau blessuðu menn og konur sem neyðast til þess, annaðhvort af því að þau hafa af því atvinnu, nú eða eru föst í skrímslinu, sem æðir áfram með þau, að því er virðist stefnulítið. Þetta minnir svolítið á eina seventies mynd sem ég sá fyrir langa löngu og hét, að mig minnir “The Blob” en hún fjallaði um einhverja gumsveru utan úr geimnum sem lak út um allt, yfir allt og gleypti allt og alla sem á vegi hennar urðu. Þessu mætti jafnvel líkja við einhverja vandamálamyndina í anda Almódóvar eða Bergman nú eða jafnvel bara sápu á borð við Dallas. Hver fyrir sig getur fundið út hver JR er – ég vildi frekar segja á að vera – í okkar Dallas.

Jú ég er að tala um “Baugsmálið”, sem nú nýlega gekk í gegnum enn eina stökkbreytinguna með rannsóknum á meintum skattalagabrotum þeirra einstaklinga, sem áður höfðu verið ákærð og sýknuð, nú eða frávísað, af kröfum ákæruvaldsins. Ég verð að segja alveg eins og er að ég er löngu hættur að skilja þetta allt saman, kannski af því að ég er löngu hættur að nenna að fylgjast með þessu en líka að hluta til af því að þetta er svo hrútleiðinlegt fjölmiðlaefni. Langir og leiðinlegir textar, sem enginn nennir að lesa og langlokur í flestöllum fjölmiðlum sem taka pláss frá öðrum og skemmtilegri fréttum, eins og t.d. fréttunum af feita kettinum sem okkur voru fluttar um daginn. Hvað hefur orðið um allar fréttirnar af pólitísku ráðbruggi, launmorðum og vopnasölu, sem gerast á hverjum degi út um allan heim? Er kannski ekkert að gerast annarsstaðar í veröldinni, eða á okkar ylhýra, sem vert er að tala um og skrifa?

Allt hófst þetta fár, að því er virðist, með því að einhver maður í útlöndum viðurkenndi að hafa brotið lög, með því að gefa út staðhæfulitla reikninga. Honum var ekki refsað þó hann sé sá eini sem hefur viðurkennt refsivert athæfi í öllum þessum málatilbúnaði. Nei ráðist var gegn stórveldinu í Baugi sem, satt best að segja, hefur staðið einna bestan vörð um hagsmuni heimilanna í landinu með tilraunum til lækkunar á matvælaverði í gegnum tíðina. Þeir gætu að vísu gert miklu betur, Baugsmenn, í lækkun matvælaverðs ef þeir hættu að gefa alla þessa peninga frá sér sem þeir hafa verið að græða á tá og fingri, m.a. úr buddunni minni, og létu sér nægja að keyra um á einhverjum ódýrari bílum en lúxusjeppum, en ég er svo sem ekkert að agnúast út af þessu neitt sérstaklega því þetta kemur mér bara alls ekkert við enda á ég ekkert í Baugi og skulda Baugi ekki neitt. Ég er bara ÉG GROUP.....

Það vakti svo sem líka athygli mína fyrir stuttu, mitt í öllu þessu havaríi að trúbadorinn síungi – sem fyrir löngu er hættur að vera málsvari “litla mannsins” og er farinn að leika í stórveldaauglýsingum til að fá meiri peninga – fékk einhverjar fjörtíu millur frá Baugi um daginn og á sama tíma einhverjir aðrir minna þekktir tónlistarmenn eitthvað minna. Baugur mætti alveg gefa mér eitthvað af þessum gróða sínum – þó svo að ég sé nú enginn tónlistarmaður. Nei annars ég hef það bara fínt takk fyrir, þrátt fyrir Baugsmálið sem lifir enn góðu lífi þó fáir nenni að velta sér upp úr því. Má ég þá frekar biðja um 18 milljón króna auglýsingu frá Orkuveitunni..........”

þriðjudagur, júlí 04, 2006

Farinn..........

í sund, í fyrsta mótorhjólatímann minn úti í umferðinni og síðan að hjálpa litla bróður upp úr kviksyndinu sem hann er kominn í með að klára kjallarann heima hjá sér áður en systir okkar flytur heim frá Guðs Eigin Landi núna á sunnudaginn..........

Já ég stóðst bóklega mótorhjólaprófið - fékk aðeins eina villu..........

Óskiljanlegt..........

Þetta er mér algerlega óskiljanlegt. Ég get hamrað orðin inn í gluggann og hlaðið þeim á veraldarvefinn en ég get ekki afritað og límt úr ritvinnsluskjölunum mínum, sem ég hef þó getað gert áður, og með því móti póstað á vefinn..........????

Óskiljanlegt, sem aftur þýðir það að ég verð að bíða aðeins með að koma frá mér pistlinum núna, sem ég ætlaði að henda frá mér, vegna þessara "smávægilegu tæknivandamála" sem eru að hrjá mig, ef ég þarf að hamra inn hvert orð fyrir sig.........

Nú er ég bit..........

Um leið og ég ákvað að reyna að láta vita að ég gæti ekki bloggað þá náttúrulega gat ég bloggað.......... Er þetta ekki dæmigert allt saman? Jæja nú ætla ég að reyna að henda einum pistli frá mér..........

Haldið ykkur fast..........

Ég er hér enn..........

Bara rétt að láta ykkur vita að ég er hér enn. Er enn í vandræðum með að pósta eitthvað frá mér úr heimilistölvunni - líka fartölvunni - þ.a. einhver smá bið verður enn á pistli.........