miðvikudagur, janúar 09, 2008

Fyrirgefið mér...

...dúllurnar mínar, hver sem þið eruð, sem hingað hafið kíkt. Ég nefnilega tók upp á því að færa mig yfir á Moggabloggið (bara til að prófa sjáið þið) þar sem ég hef alið manninn í þó nokkurn tíma.

Þið getið séð hvað hefur á daga mína drifið þar með því að afrita og líma þennan hlekk í vafrann ykkar:

www.snorrima.blog.is

mánudagur, mars 19, 2007

Lítið..........

..........búið að vera að gerast hjá mér á blogginu mínu frá því löngu fyrir jól en núna fer að verða breyting á.

Las um helgina helgarblað DV þar sem var allítarleg grein um spillingu á Íslandi og kannski sér í lagi í íslenskri pólitík. Virkilega áhugaverð lesning og bíð ég spenntur eftir boðuðu framhaldi á þessari umfjöllun þar sem m.a. verður fjallað um pólitískar og vinargreiða stöðuveitingar hjá hinu opinbera!!

Annars fer að líða að kosningum til Alþingis, sem áhugavert verður líka að fylgjast með þar sem ýmislegt skrautlegt lið hefur boðið sig fram til þessara ábyrgðastarfa. Athyglisvert einnig í ljósi nýlegrar könnunar um virðingu, sem almenningur ber til stofnana en þar var þessi annars ágæta stofnun ansi neðarlega og reyndar smánarlega neðarlega. Ætti að ýta við ýmsum, sérstaklega í ljósi umfjöllunar DV og einnig og ekki síður í ljósi nýlega samþykkts frumvarps um eftirlaun alþingismanna, sem rann ljúflega í gegnum þingið. Þetta virðist þó ekki hafa nein áhrif eða í það minnsta afar lítil. Mikið væri ég til í að sömu eftirlaunakjör giltu í minni starfsstétt en þá gæti ég hafið töku fullra eftirlauna nú þegar enda búinn með vel rúm sextán ár við mín störf. Það verður þó, held ég, seint sem það gerist.

fimmtudagur, desember 14, 2006

Mikið..........

..........í fréttum þessa dagana.

Þannig var t.d. í fréttatíma sjónvarpsins í gærkvöldi fjallað um nýgenginn dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Reykjavíkurborgar og Strætó gegn olíufélögunum. Þar féll dómurinn Reykjavíkurborg og Strætó í vil, eins og ég hafði reyndar vonast eftir. Það sýnir, LOKSINS, að það er einhver virkni í samkeppnislögum og vernd neytenda gegn ofríki og neikvæðu verðsamráði risafyrirtækja.

Í sama fréttatíma var einnig frétt um það að möguleg væri ákæra á hendur forstjórum þessara sömu olíufyrirtækja, sem ég, sem neytandi - og neyddur til að nýta mér þjónustu þessara gæpafyrirtækja, eins og Þráinn Bertelsson kallaði þau - get ekki annað en fagnað. Það verður gaman að sjá hvað verður úr þeim málarekstri og hvort að eiginmaður forseta Alþingis Íslendinga sjái sóma sinn í því að hætta að ferðast opinberlega með forsetanum, á kostnað okkar skattgreiðenda, til útlanda en sú framkvæmd er að mínu mati merki um afar lágt siðferðismat og gildi viðkomandi. Forsetinn (þ.e. Alþingis) ætti náttúrulega að segja af sér bæði embætti forseta þingsins, sem og þingsetu ef útkoma málareksturs verður sú að maki viðkomandi verði sekur fundinn um glæpi gegn þjóðinni.
Í Morgunblaðinu, og fleiri blöðum, nú í morgun var einnig fjallað um þennan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, sem og ákærur, sem verið er að gefa út (eða búið) á hendur þremur olíuverðsamráðsforstjórum. Nú skulum við bíða og sjá hvað setur.

Ég hlakka til.
Ég fjallaði aðeins um þetta, sem og pistil Þráins Bertelssonar, í pistli mínum þann 27. ágúst s.l.:

miðvikudagur, desember 13, 2006

Oft ratast..........

..........kjöftugum satt orð í munn, segir máltæki eitt.
Í júní s.l. skrifaði ég hér smá pistil um bæjar- og sveitarstjórnarkosningarnar hér á landi og hafði þar orð á því að einn minnsti stjórnmálaflokkur landsins, Framsóknarflokkurinn, væri nú enn á ný kominn að kjötkötlunum margfrægu. Hvað hefur svo komið í ljós? Það getur svo sem hver dæmt fyrir sig en nákvæmlega núna, þegar ég er að hamra inn þennan texta er umfjöllun í Kastljósi sjónvarpsins um nákvæmlega þetta atriði og nefnd til sögunnar ótal mörg dæmi um hvernig þessi landsins mesti fyrirgreiðsluflokkur hefur otað sínum mönnum í allskyns gæluverkefni á vegum Reykjavíkurborgar. Verkefni sem væntanlega kosta skattgreiðendur í Reykjavík einhverjar milljónir. Ég er feginn að vera ekki einn af þeim um þessar mundir.
Já og múmían var gerð að.....hvað var það nú aftur......??? Framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarinnar!!!!! Þeir hugsa um sig og sína pólitíkusarnir.
Hún er undarleg tík, þessi pólitík.........
Sjáið sjálf pistil minn frá í júní:

miðvikudagur, október 11, 2006

Auka..........

..........á öryggistilfinningu fólks, auka öryggi og fækka afbrotum í tilgreindum brotaflokkum, allt gert með hagræðingu og betri nýtingu fjármuna??

Ég var að lesa fréttir, í lok vikunnar, um nýstofnað embætti lögreglu höfuðborgarsvæðisins en þar er ofangreint tilgreint.

Það vakti athygli mína í þessu öllu saman að það er ekkert rætt um aukningu á mannafla í lögreglunni þ.a. ég, sem íbúi þessa svæðis, geri þar með ráð fyrir því að það eigi einungis að rétta laganna vörðum, sem nú eru við störf, stærri og sterkari skóflur til að moka flórinn með. Gunnar Jóhann Birgission nefndi einhversstaðar að þetta væri líkt og að fletja út flatbökudeig þ.e. að hnúðar í deiginu, hér og þar, yrðu bara flattir aðeins betur út og færðir til í deiginu.

Ég sá líka skipurit þessa embættis en þar er gert ráð fyrir þremur yfirlögregluþjónum, líkt og var hér í eina tíð þegar Bjarki Elíasson stjórnaði almennri deild lögreglunnar, Óskar Ólason var yfir umferðardeildinni (sem þá taldi ein fimmtán Harley Davidson mótorhjól) og Guðmundur Hermannsson var yfir rannsóknardeild lögreglunnar. Nota bene, þetta var einungis Reykjavík!! Þá sá lögreglan í Reykjavík ekki um löggæslu á svæðinu frá Gróttuvita upp í Hvalfjarðarbotn en síðan hefur MIKIÐ vatn runnið til sjávar. Síðan þetta var hefur fjölgað á almennum vöktum lögreglunnar í Reykjavík úr u.þ.b. þrjátíu (30) lögreglumönnum í u.þ.b. tuttugu (20), umferðardeildin hefur fjölgað úr u.þ.b. átta (8) pr. vakt í fjóra (4), mótorhjólum hefur fjölgað úr fimmtán (15) í fimm (5) og svona mætti lengi telja. Og enn er verið að auka öryggistilfinngu íbúa þessa svæðis.

Þetta eru undarlegar reikningskúnstir..........
Mig undrar að engir blaðamenn hafi skoðað þessi mál virkilega ofan í kjölinn. Það er kannski svo mikið annað að gera hjá þeim..........

fimmtudagur, september 14, 2006

Tjáningarfrelsi..........

Þessi pistill var fluttur í morgunþætti Kiss FM 89,5 fimmtudaginn 14 september 2006.
Ég sat í flugvél á leið heim til Íslands, frá Danmörku s.l. mánudag, og las Morgunblaðið mánudaginn 11 september, nákvæmlega fimm árum eftir árásina á tvíburaturnana í New York. Þarna las ég grein, í miðopnu blaðsins, um það að “Smyglflugvélar sæust ekki á ratsjá í íslenskri lofthelgi” og á baksíðu blaðsins að “Ný leið til að smygla fíkniefnum” væri opin.
Ágætis umfjöllun og þokkalega vel skrifuð frétt en þvílík og önnur eins vitleysis frétt. Hvaða snillingi ætli hafi dottið í hug að blaðra þessu í fjölmiðla!

Það sem fréttin fjallar um er að vísu grafalvarlegt mál, ef að satt er, en hitt er verra, tel ég, að vera að fjalla um þetta á slíkum vettvangi þ.e. opinberlega í fjölmiðlum. Þetta er umræða sem á að fara fram fyrir luktum dyrum í þeim ráðuneytum, sem með þessi mál eiga að fara og á ekkert erindi við almenning. Það er nefnilega einusinni þannig að það gæti einhverjum fávitanum, sem ekki vissi betur, dottið í hug að fara að fljúga heimshorna á milli til að sækja sér fíkniefni og smygla þeim til landsins, með þeim hætti sem nefndur er í umræddum blaðagreinum.

Það sem kom mér líka á óvart við að lesa þessar greinar var að blaðamaðurinn, sem skrifaði þær, var sinkt og heilagt að vitna í einhvern ónafngreindan sérfræðing og viðmælanda með sérþekkingu. Viðmælandinn, með sérþekkinguna taldi líka að hér þyrfti að koma upp einhverjum viðbúnaði til að taka á þessum vanda t.d. með því að hafa til staðar hraðskreiða flugvél, sem tollverðir gætu notað til að taka á móti slíkum smyglvélum. Ekki veit ég hvað maðurinn með sérþekkinguna sér fyrir sér en kannski eitthvað atriði úr Steven Segal mynd þar sem menn fara að hoppa á milli flugvéla í háloftunum og yfirtaka vélina með smyglurunum og dópinu innanborðs. Ég hef aldrei talið mig neinn sérfræðing og þaðan af síður að ég hafi sérþekkingu á einhverju sviði en hitt veit ég, eins og ég benti á hér á undan að þessi frétt átti nákvæmlega ekkert erindi við almenning.

Mér brá líka við að lesa aðrar greinar í sama blaði en þær voru báðar skrifaðar til varnar tjáningar-, skoðana- og málfrelsi Íslendinga. Mér brá við að lesa þær af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi þeirri að þær voru báðar skrifaðar sem gagnrýni á grein prests innflytjenda hér á landi, Toshiki Toma, sem birst hafði í Morgunblaðinu þann 03 september s.l. og í annan stað af því að ég hafði um nýliðna helgi farið í gönguferð um Íslendingaslóðir í Kaupmannahöfn með Guðlaugi Arasyni rithöfundi þar sem ég heyrði upprifjaða Íslandssöguna um baráttu okkar fyrir sjálfstæði og þær þrautir sem við, sem þjóð, gengum í gegnum til að ná því marki.
Mér brá að lesa að prestur skyldi hafa skrifað það sem honum var lagt í munn í báðum þessum greinum. Að prestur skyldi leggja það til að ritstjórn Morgunblaðsins færi að leggja siðferðilegt mat á aðsendar greinar, sem birtast undir nafni og í langflestum tilfellum líka mynd, í sama blaði. Að prestlærður maðurinn skyldi skyldi spyrja ritstjóra blaðsins hvort einhver maður úti í bæ megi skrifa það sem honum lysti og senda inn til birtingar í Morgunblaðinu.
Ég er ansi hræddur um það að viðkomandi prestur væri ekki í þeirri stöðu, sem hann er í í dag ef ekki væri fyrir ákveðið skoðanafrelsi, sem menn börðust fyrir með kjafti og klóm og lífi sínu líka þegar Lúterstrú vorra tíma var að skjóta rótum. Ég er ansi hræddur um að Ísland dagsins í dag væri ekki til ef ekki væri fyrir þá staðreynd að ákveðnir einstaklingar birtu skoðanir sínar á prenti, í kóngsins Kaupmannahöfn, eins og Guðlaugur Arason benti á í gönguferð okkar um Íslendingaslóðir í Kaupmannahöfn s.l. sunnudag. Þar var rifjuð upp saga sem skilaði Íslandi þangað sem það er statt í dag þar, sem betur fer, menn geta sagt skoðanir sínar umbúðalaust og í flestum tilfellum án þess að eiga það á hættu að einhverjir alvitrir sérfræðingar fari að hafa vit fyrir þeim.

Það er sitthvað að skrifa fréttir um eitthvað eða skrifa um skoðanir sínar og sem betur fer búum við Íslendingar við skoðana-, tjáningar-, trú-, mál- og ritfrelsi, svo eitthvað sé nefnt. Frelsi, sem getur verið vandmeðfarið en ef menn skilja og virða það frelsi á það ekki að skaða nema þann, sem í fáfræði, heldur fram endalausri vitleysu. Þá verður líka sá hinn sami dæmdur af verkum sínum og skrifum.

Fréttir á og þarf að ritskoða, því allar fréttir eiga ekki skilyrðislaust erindi við fólk en allir eiga rétt á því að tjá skoðanir sínar hvar og hvenær sem er, takmarka- og skilyrðalaust. Það er mitt mál, sem einstaklings að ákveða hvort ég er sammála eða ósammála skoðunum viðkomandi einstaklings en ég get aldrei leyft mér að þagga niður í rödd einstaklingsins, hver sem hann er og hvaða skoðun sem hann hefur, hversu ósammála þeirri skoðun ég kann að vera.

Voltaire, sem trúði umfram allt á málfrelsi einstaklingsins, sagði einhvern tíma “Ég er ósammála því sem þú hefur að segja, en ég mun berjast með lífi mínu fyrir rétti þínum til að segja það.”

fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Óheppilegt..........

Þessi pistill var fluttur í morgunþætti Kiss FM 89,5 fimmtudaginn 31 ágúst 2006.
Það var óheppilegt, sagði lagaprófessorinn á Akureyri um það að Árna Johnsen skyldi verða veitt uppreisn æru sinnar vegna brota sem hann framdi, ekki einungis í opinberu starfi, heldur sem þingmaður á hinu háa Alþingi Íslendinga. Sjálfri löggjafarsamkundunni þar sem samin eru lög fyrir sauðsvartan almúgann að fara eftir. Ef við, aumingjarnir, förum svo ekki eftir lögunum erum við dæmd til refsingar, sem allt er nú gott og vel. Það sem hinsvegar vekur sérstaka athygli í þessu máli er að maður, sem á starfa síns vegna, að vera fyrirmynd okkar hinna – hann jú átti þátt í því til margra ára að setja okkur leikreglurnar – skuli, nánast óumbeðið, ef marka má orð hans sjálfs í fjölmiðlum fá uppreisn æru fyrir það að stela frá okkur til sinna eigin þarfa. Það sem vekur líka athygli í þessu öllu saman er sú staðreynd að það skuli vera flokkssystkin hans úr Sjálfstæðisflokknum, sem handhafar forsetavalds í fjarveru Forseta Íslands, sem tóku þá undarlegu ákvörðun að veita Árna Johnsen uppreisn æru sinnar. Þau hefðu betur, að mínu mati og reyndar lagaprófessorsins á Akureyri líka, beðið komu Forsetans til landsins og leyft honum að glíma við þessa þraut. En þetta er nú allt saman búið og gert líkt og glæpur Árna sem hann hefur jú tekið út sína refsingu fyrir í einu af yfirfullum fangelsum landsins. Hann virðist líka vera einn af afar fáum sem náð hafa að koma þaðan út fullur iðrunar, lofandi bót og betrun og það sem meira er hafandi fundið listagyðjuna innra með sér í betrunarvistinni og límir saman grjót í gríð og erg. Árni greyið talaði nú reyndar um að þetta hafi allt saman verið mistök þegar rætt var við hann í sjónvarpinu í gær og ætli hann hafi ekki bara óvart LENT í þessu óhappi. En – batnandi mönnum er best að lifa segi ég og til hamingju Árni með að komast aftur að kjötkötlunum.

Það er þá kannski líka von, fyrir olíusamráðsfurstana, eftir að þeir hafa hlotið sinn dóm og uppreisn æru frá m.a. maka sínum að þeir finni innra með sér frið og ró eftir að hafa haft af meginþorra landsmanna fé, með ólögmætum hætti til margra ára, að þeir finni hjá sér skapandi þörf og haldi jafnvel sýningar á einhverjum klessuverkum eða grjóthnullungum, sem þeir gætu svo, sameinast um að selja ríkinu á uppsprengdu en að sjálfsögðu sama verði allir sem einn. Einn fyrir alla og allir fyrir einn sögðu skytturnar þrjár. Kannski það hafi líka verið kjörorð olíufurstanna þriggja?

Æ það er svo gaman að fylgjast með stjórnendum bananalýðveldisins, hverjum á fætur öðrum reyna að draga hvern annan upp úr skítnum, sem þeir hafa mokað yfir sig trekk í trekk, algerlega hjálparlaust. Svo er talað og talað og malað og malað og lofað og lofað og svikið og svikið og stolið og stolið, meira og meira úr vösum almúgans til að lækka skatta og minnka skyldur þessara sömu bananatínslumanna. Stolið svo furstarnir geti haldið úti vinnuhjúum og farið til útlanda á okkar kostnað. Við erum jú bara óþjóðalýður og skríll, sem ekki einu sinni gætum lifað í vellystingum praktúðlega þó okkur væru færðir gull og grænir skógar. Við myndum bara sigla fleyinu í strand í endalausu gullæði og neyslufylleríi, eins og okkur er sagt að við séum að gera núna. Við erum bara vitleysingar og þeir eru snillingar, sem stjórna bananalýðveldinu.

Það er kominn tími til að gera eitthvað annað en að tala og tala og mala og mala. Það er kominn tími til að sýna bananaplantekrueigendunum að það er fylgst með þeim og gera þeim það ljóst að þeir verði dæmdir af verkum sínum og hjáverkum líka þegar kemur að kosningum. Það er kominn tími til að hleypa heiðarlegum einstaklingum að því að stjórna þessu landi okkar til enn meiri hagsældar. Það er kominn tími til að hreinsa til í skúmaskotum þjóðfélagsins og koma bak við lás og slá glæpamönnum þessarar þjóðar, hvar sem þeir kunna að leynast. Það er kominn tími til að skila auðu í kosningum.