Þessi pistill var fluttur í morgunþætti Kiss FM 89,5 fimmtudaginn 14 september 2006.
Ég sat í flugvél á leið heim til Íslands, frá Danmörku s.l. mánudag, og las Morgunblaðið mánudaginn 11 september, nákvæmlega fimm árum eftir árásina á tvíburaturnana í New York. Þarna las ég grein, í miðopnu blaðsins, um það að “Smyglflugvélar sæust ekki á ratsjá í íslenskri lofthelgi” og á baksíðu blaðsins að “Ný leið til að smygla fíkniefnum” væri opin.
Ágætis umfjöllun og þokkalega vel skrifuð frétt en þvílík og önnur eins vitleysis frétt. Hvaða snillingi ætli hafi dottið í hug að blaðra þessu í fjölmiðla!
Það sem fréttin fjallar um er að vísu grafalvarlegt mál, ef að satt er, en hitt er verra, tel ég, að vera að fjalla um þetta á slíkum vettvangi þ.e. opinberlega í fjölmiðlum. Þetta er umræða sem á að fara fram fyrir luktum dyrum í þeim ráðuneytum, sem með þessi mál eiga að fara og á ekkert erindi við almenning. Það er nefnilega einusinni þannig að það gæti einhverjum fávitanum, sem ekki vissi betur, dottið í hug að fara að fljúga heimshorna á milli til að sækja sér fíkniefni og smygla þeim til landsins, með þeim hætti sem nefndur er í umræddum blaðagreinum.
Það sem kom mér líka á óvart við að lesa þessar greinar var að blaðamaðurinn, sem skrifaði þær, var sinkt og heilagt að vitna í einhvern ónafngreindan sérfræðing og viðmælanda með sérþekkingu. Viðmælandinn, með sérþekkinguna taldi líka að hér þyrfti að koma upp einhverjum viðbúnaði til að taka á þessum vanda t.d. með því að hafa til staðar hraðskreiða flugvél, sem tollverðir gætu notað til að taka á móti slíkum smyglvélum. Ekki veit ég hvað maðurinn með sérþekkinguna sér fyrir sér en kannski eitthvað atriði úr Steven Segal mynd þar sem menn fara að hoppa á milli flugvéla í háloftunum og yfirtaka vélina með smyglurunum og dópinu innanborðs. Ég hef aldrei talið mig neinn sérfræðing og þaðan af síður að ég hafi sérþekkingu á einhverju sviði en hitt veit ég, eins og ég benti á hér á undan að þessi frétt átti nákvæmlega ekkert erindi við almenning.
Mér brá líka við að lesa aðrar greinar í sama blaði en þær voru báðar skrifaðar til varnar tjáningar-, skoðana- og málfrelsi Íslendinga. Mér brá við að lesa þær af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi þeirri að þær voru báðar skrifaðar sem gagnrýni á grein prests innflytjenda hér á landi, Toshiki Toma, sem birst hafði í Morgunblaðinu þann 03 september s.l. og í annan stað af því að ég hafði um nýliðna helgi farið í gönguferð um Íslendingaslóðir í Kaupmannahöfn með Guðlaugi Arasyni rithöfundi þar sem ég heyrði upprifjaða Íslandssöguna um baráttu okkar fyrir sjálfstæði og þær þrautir sem við, sem þjóð, gengum í gegnum til að ná því marki.
Mér brá að lesa að prestur skyldi hafa skrifað það sem honum var lagt í munn í báðum þessum greinum. Að prestur skyldi leggja það til að ritstjórn Morgunblaðsins færi að leggja siðferðilegt mat á aðsendar greinar, sem birtast undir nafni og í langflestum tilfellum líka mynd, í sama blaði. Að prestlærður maðurinn skyldi skyldi spyrja ritstjóra blaðsins hvort einhver maður úti í bæ megi skrifa það sem honum lysti og senda inn til birtingar í Morgunblaðinu.
Ég er ansi hræddur um það að viðkomandi prestur væri ekki í þeirri stöðu, sem hann er í í dag ef ekki væri fyrir ákveðið skoðanafrelsi, sem menn börðust fyrir með kjafti og klóm og lífi sínu líka þegar Lúterstrú vorra tíma var að skjóta rótum. Ég er ansi hræddur um að Ísland dagsins í dag væri ekki til ef ekki væri fyrir þá staðreynd að ákveðnir einstaklingar birtu skoðanir sínar á prenti, í kóngsins Kaupmannahöfn, eins og Guðlaugur Arason benti á í gönguferð okkar um Íslendingaslóðir í Kaupmannahöfn s.l. sunnudag. Þar var rifjuð upp saga sem skilaði Íslandi þangað sem það er statt í dag þar, sem betur fer, menn geta sagt skoðanir sínar umbúðalaust og í flestum tilfellum án þess að eiga það á hættu að einhverjir alvitrir sérfræðingar fari að hafa vit fyrir þeim.
Það er sitthvað að skrifa fréttir um eitthvað eða skrifa um skoðanir sínar og sem betur fer búum við Íslendingar við skoðana-, tjáningar-, trú-, mál- og ritfrelsi, svo eitthvað sé nefnt. Frelsi, sem getur verið vandmeðfarið en ef menn skilja og virða það frelsi á það ekki að skaða nema þann, sem í fáfræði, heldur fram endalausri vitleysu. Þá verður líka sá hinn sami dæmdur af verkum sínum og skrifum.
Fréttir á og þarf að ritskoða, því allar fréttir eiga ekki skilyrðislaust erindi við fólk en allir eiga rétt á því að tjá skoðanir sínar hvar og hvenær sem er, takmarka- og skilyrðalaust. Það er mitt mál, sem einstaklings að ákveða hvort ég er sammála eða ósammála skoðunum viðkomandi einstaklings en ég get aldrei leyft mér að þagga niður í rödd einstaklingsins, hver sem hann er og hvaða skoðun sem hann hefur, hversu ósammála þeirri skoðun ég kann að vera.
Voltaire, sem trúði umfram allt á málfrelsi einstaklingsins, sagði einhvern tíma “Ég er ósammála því sem þú hefur að segja, en ég mun berjast með lífi mínu fyrir rétti þínum til að segja það.”